Viðskipti innlent

Frumvarp um innistæðutryggingar sveiflaði skuldabréfamarkaðinum

Hagfræðideild Landsbankans telur að miklar sveiflur á skuldabréfamarkaðinum í gærdag megi líkast til rekja til frumvarps efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem gert er ráð fyrir að taki gildi um áramótin.

Samkvæmt frumvarpinu verður hámark á tryggingu innstæðueigenda miðað við 50 þúsund evrur verði það óbreytt að lögum. Þetta yrði því töluverð breyting frá núverandi aðstæðum þar sem þrjár ríkisstjórnir hafa nú gefið út yfirlýsingar um að allar innstæður séu tryggðar að fullu.

Fjallað er um málið í Hagsjá hagfræðideildarinnar. Þar er greint frá því að mikil velta var á skuldabréfamarkaði í gær og lækkaði ávöxtunarkrafa allra flokka sem viðskipti voru með. Heildarvelta var 19,8 milljarðar kr. og þar af voru 19,4 milljarðar kr. með markflokka, það er ríkis- og íbúðabréf.

Ávöxtunarkrafa þeirra lækkaði um 6 - 48 punkta, mest á styttri bréfunum. Krafa stysta íbúðabréfsins, HFF 14, lækkaði þannig um 48 punkta og endaði í 2,62% en mest viðskipti voru með þetta bréf.

Haft er eftir aðstoðarmanni forsætisráðherra á vefsíðunni www.visir.is að þrátt fyrir frumvarpið standi yfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar um innstæðutryggingar. Þær standi á meðan annað komi ekki fram og að engin tímamörk séu í því sambandi.

Samkvæmt þessu skaut skuldabréfamarkaðurinn ef til vill yfir markið í dag og má jafnvel búast við einhverri leiðréttingu í dag. Hins vegar verður að teljast afar bagalegt að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp um svo mikilvægt mál án þess að ítreka yfirlýsingu sína, sé raunin sú að hún haldi.

Jafnframt má draga í efa að nóg þyki að aðstoðarmaður ráðherra ítreki hana við einn fréttamiðil til þess að yfirlýsingin haldi gildi sínu. Þegar fram kemur stjórnarfrumvarp sem er á skjön við fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnar er auðvelt að geta sér til um að áherslur hafi tekið breytingum. Viðbrögð á skuldabréfamarkaði í dag sína að minnsta kosti að upplýsingagjöf hafi verið ábótavant að þessu sinni.

Í nýlegri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika er sérstaklega vikið að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og tekið fram að hún hafi áhrif á val fjárfesta og innstæðueigenda á fjárfestingarkostum. Þannig geti afnám hennar, ef óvarlega er farið, haft neikvæð áhrif á fjármögnun fjármálastofnana þar sem þær eru við núverandi aðstæður að mestu fjármagnaðar af innlánum.

Jafnframt er vikið að því hvernig sé hentugt að haga málum þegar dregið er úr yfirlýsingunni til þess að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Meðal annars er sagt að eyða þurfi óvissu um lagatúlkun innstæðutryggingasjóðs og efla eftirlitsstofnanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×