Erlent

Sjóræningjar hraktir frá borði

Maersk Alabama. Öryggisverðir um borð beittu skotvopnum og hávaða til að hrinda árás sjóræningja.fréttablaðið/AP
Maersk Alabama. Öryggisverðir um borð beittu skotvopnum og hávaða til að hrinda árás sjóræningja.fréttablaðið/AP

Sjóræningjar frá Sómalíu réðust í gær á bandaríska flutningaskipið Maersk Alabama, sama skipið og varð fyrir barðinu á sómalískum sjóræningjum fyrir sjö mánuðum.

Að þessu sinni tókst öryggisvörðum um borð í skipinu að hrinda árásinni með því að beita skotvopnum og hávaða. Bandarísk eftirlitsflugvél fylgdi skipinu síðan áfram að áfangastað í Keníu.

Í apríl síðastliðnum tókst sjóræningjum að halda Richard Philips, skipstjóra Maersk Alabama, í gíslingu í litlum björgunarbát í fimm daga. Skyttur úr úrvalssveitum bandaríska sjóhersins frelsuðu Philips og drápu í leiðinni þrjá sjóræningja.

Í gær tókst að frelsa annað skip, Alakrana frá Spáni, úr klóm sjóræningja sem flúðu til lands. Reynt var að stöðva þá á flótta og skotið á þá úr spænskri þyrlu, en þeir komust undan.

Í gær skýrðu síðan sjóræningjar frá því að skipstjóri skips frá Norður-Kóreu, sem rænt var á mánudag, hefði látist af skotsárum sem hann hlaut í átökum þegar skipinu var rænt.

Bandaríski varaaðmírállinn Bill Gortney hrósar útgerð Maersk Alabama fyrir að hafa ráðið öryggisverði um borð. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×