Enski boltinn

Útilokar ekki að sýna bringuhárin aftur

Giggs skorar markið fræga gegn Arsenal
Giggs skorar markið fræga gegn Arsenal Nordic Photos/Getty Images

Gamli refurinn Ryan Giggs hjá Manchester United spilar sinn 800. leik fyrir félagið ef hann kemur við sögu í Meistaradeildarleiknum gegn Arsenal annað kvöld.

Giggs skoraði eitt sitt eftirminnilegasta mark í undanúrslitum enska bikarsins gegn Arsenal fyrir tíu árum síðan þegar hann lék á hvern varnarmanninn á fætur öðrum og tryggði United sætan sigur.

Hann útilokar ekki að endurtaka leikinn ef hann skorar gegn Arsenal í Meistaradeildinni nú.

"Ég veit ekki hvort ég á að vera að halda svo mikið upp á þetta mark, því fólk man frekar eftir fagninu en markinu sjálfu," sagði Giggs. Hann fagnaði sólómarkinu sínu sem óður maður, klæddi sig úr treyjunni og veifaði henni fyrir ofan höfuð sér á sprettinum.

Smelltu hér til að sjá markið fræga

"Maður ræður ekki við sig á stundu sem þessari. Tilfinningarnar bera mann ofurliði þegar maður skorar svona mikilvægt mark. Ég var vanur að segja að ég myndi aldrei endurtaka svona, en maður veit aldrei," sagði þessi 35 ára gamli höfðingi.

"Ef einhver hefði spurt mig að því þegar ég var nítján ára hvort ég teldi að ég myndi spila undanúrslitaleik í Meistaradeildinni þegar ég yrði 35 ára - hefði ég hiklaust neitað því," sagði Giggs. "Ég hef samt verið heppinn með að hafa góða leikmenn í kring um mig og svo hef ég passað vel upp á mig," sagði Walesverjinn.

Hann gætir vel að mataræðinu og byrjaði að stunda jóga þegar hann var þrítugur. hann segir það hafa hjálpað sér mikið.

"Ég var alltaf meiddur í aftanverðum lærum en það hefur hjálpað mér að iðka jóga. Ég er líka ekki eins fljótur og ég var og því meiðist ég síður," sagði Giggs.

En hvernig fer hann að því að halda sér í röðum þeirra bestu þrátt fyrir að vera kominn hátt á fertugsaldurinn?

"Maður verður að gera eitthvað í því þegar strákar eins og Rafael eru að spretta framhjá manni á æfingum. Það er leiðinlegt þegar það gerist, en þá verður maður líka bara að bæta sig," sagði Giggs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×