Viðskipti innlent

Spannar litróf atvinnulífsins

Forstjóri Kauphallarinnar gerir ráð fyrir því að litrík fyrirtækjaflóra verði skráð á markað í Kauphöllinni eftir fimm ár. Markaðurinn/gva
Forstjóri Kauphallarinnar gerir ráð fyrir því að litrík fyrirtækjaflóra verði skráð á markað í Kauphöllinni eftir fimm ár. Markaðurinn/gva
„Við teljum að eftir þrjú til fimm ár verði Kauphöllin búin að ná upp sínum fyrri styrk,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Þórður sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku útlit fyrir að fimmtán fyrirtæki verði skráð á markað á næsta ári og verði þau allt að þrjátíu í lok árs. „Við vitum nú þegar um allnokkurn fjölda sem vill inn en er ekki tilbúinn til þess á næsta ári,“ segir hann.

Til samanburðar voru 75 fyrirtæki skráð á markað í kringum 2001 og höfðu þau þá aldrei verið fleiri. Þar af voru um 30 sjávarútvegsfyrirtæki, olíufélög og fleiri fyrirtæki í svipuðum dúr.

Þórður gerir ráð fyrir að fyrirtækin sem fari á markað verði nokkuð minni en þau sem þar hafi verið í kringum hrunið, sum hver lítil. Hann telur líklegt að skráð fyrirtæki muni verða þverskurður af atvinnulífinu hér og megi gera ráð fyrir að á meðal þeirra verði sjávarútvegsfyrirtæki, úr orkugeiranum og smásölufyrirtæki. Þá megi ekki útiloka að bankarnir leiti aftur út á markaðinn auk þekkingarfyrirtækja, sprotafyrirtækja sem komin séu á ákveðinn stall. Þau verði skráð á hliðarmarkaðinn First North.

„Við munum væntanlega verða komin með hlutabréfamarkað sem verður orðinn svipaður að stærð og á Norðurlöndunum,“ segir Þórður og bætir við að hugsanlega kunni markaðsverðmæti þeirra að samsvara einni landsframleiðslu.

Gróflega er það þrisvar sinnum stærra en Kaupþing var eitt og sér þegar best lét. Helsti óvissuþátturinn felst í samrunum fyrirtækja, að sögn Þórðar. Gangi það eftir munu færri fyrirtæki sækjast eftir skráningu en ella. Þau verði hins vegar stærri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×