Viðskipti innlent

Dregur úr ótta um afdrif Dúbaí

Sjeik Mohammed bin Rashid al-Maktoum, fursti í Dúbaí, reyndi í gær að fullvissa fjölmiðla um að efnahagur furstadæmisins væri traustur og sagði að heimurinn skildi ekki stöðu mála í ríkinu. Fréttablaðið/AFP-NordicPhoto
Sjeik Mohammed bin Rashid al-Maktoum, fursti í Dúbaí, reyndi í gær að fullvissa fjölmiðla um að efnahagur furstadæmisins væri traustur og sagði að heimurinn skildi ekki stöðu mála í ríkinu. Fréttablaðið/AFP-NordicPhoto
Sjeik Mohammed bin Rashid al-Maktoum, fursti í Dúbaí, segir að staða furstadæmisins sé sterk. Viðbrögð markaða við greiðslustöðvun eignarhaldsfélagsins Dúbaí World beri vott um skilningsleysi.

„Þeir skilja ekki neitt,“ sagði furstinn þegar hann ræddi við blaðamenn í gær, samkvæmt vefútgáfu Financial Times.

Dúbaí World er eignarhaldsfélag í eigu opinberra aðila í Dúbaí. Það er talið skulda um 60 milljarða bandaríkjadala. Fyrirtækið tilkynnti á miðvikudag að það gæti ekki greitt af skuldum sínum.

Rætt hefur verið um Dúbaí sem „nýja Ísland“ í erlendum fjölmiðlum og hruni hefur verið spáð í landinu. Fréttir af erfiðleikum Dúbaí World komu fram í lækkandi hlutabréfaverði um allan heim. Fyrirtækið hefur verið umsvifamikið í alþjóðaviðskiptum og merkisberi þeirrar stefnu stjórnvalda í furstadæminu að breyta furstadæminu í alþjóðlega fjármálamiðstöð.

Sjeik Mohammed bin Rashid al-Maktoum fursti beindi líka spjótum að fjölmiðlum vegna umfjöllunar undanfarna daga og sagði: „Fyrirtækið er sjálfstætt og óháð ríkisstjórninni. Þetta fjölmiðlafár hefur engin áhrif á einbeitta afstöðu okkar. Það er ekki nema eðlilegt að við tökum til varna þegar þessi aðför er gerð og þetta mikla fár verður í fjölmiðlum.“

Í gærmorgun rufu stjórnendur Dúbaí World sex daga þögn og tilkynntu að fyrirtækið ætti í viðræðum við lánardrottna um endurfjármögnun 26 milljarða dala skulda. Við þær fréttir þokuðust hlutabréfavísitölur í London og Frankfurt, París og New York upp á við á ný. Gengi hlutabréfa í bresku bönkunum, Royal Bank of Scotland, Barclays og HSBC sem eru meðal stærstu lánardrottna Dúbaí World, fór hækkandi á ný.

Sérfræðingar, sem rætt var við á vefútgáfu Daily Telegaph, sögðu að markaðurinn hefði talið að 60 milljarða dala skuldir væru í uppnámi Dúbaí World. Því hafi yfirlýsing fyrirtækisins í gær dregið úr áhyggjum af alvarleika ástandsins.

Verð á skuldatryggingum Dúbaí lækkaði einnig í gær.

„Markaðirnir eru að viðurkenna að Dúbaí-kreppan er bundinn við þann heimshluta,“ sagði Heino Ruland, sérfræðingur hjá Ruland Research í Frankfurt, í samtali við vefútgáfu breska dagblaðsins Daily Telegraph.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×