Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri segir raunstýrivexti vera 9,5%

„Már (Guðmundsson) benti á að raunverulegir stýrivextir í dag væru innlánsvextir bankans sem nú eru 9,5% vegna þess að þeir vextir hefðu mun meiri áhrif um þessar mundir en vextir á veðlánum til fjármálastofnana."

Þessi tilvitnun er úr Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um síðustu stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar í dag. Þar segir að síðarnefndu vextirnir eru þeir sem í daglegu tali hafa verið kallaðir stýrivextir Seðlabankans, enda marka þeir miðbik þeirra skammtímavaxta sem bankinn ákveður.

„Því mætti segja að það ákvæði stöðugleikasáttmálans sem sneri að því að stýrivextir yrðu komnir niður fyrir 10% í nóvember væri uppfyllt. Seðlabankastjóri tók raunar fram að rætt hefði verið að lækka vexti á veðlánum, sem eru nú 12%, en halda innlánsvöxtum óbreyttum. Hins vegar hefði verið fallið frá því þar sem það var talið geta skapað þann misskilning að aðhald peningastefnunnar væri í raun og veru að minnka, einkum meðal útlendinga," segir í Morgunkorninu.

Þá kemur fram að skilyrði til að byrja að afnema gjaldeyrishöft gætu bráðlega orðið til staðar, að mati Seðlabankans, en það er háð því að tvíhliða og fjölþjóða fjármögnun sé tryggð. Þetta bendir til þess að niðurstaða í Icesave-samningum, sem staðfesting AGS á fyrstu endurskoðun aðgerðaáætlunar sjóðsins og stjórnvalda virðist hvíla á, sé forsenda fyrir því að hafist verði handa við afnám gjaldeyrishafta.

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri segir hafa komið skýrt fram í viðræðum sínum við erlenda aðila að staðfesting endurskoðunarinnar sé algert forgangsatriði fyrir áframhaldandi endurreisn efnahagslífsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×