Viðskipti innlent

Samorka hraunar yfir Sjónarrönd ehf.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gagnrýna harðlega áfangaskýrslu þá sem Sjónarrönd ehf. vann fyrir fjármálaráðuneytið um arðsemi íslenskra orkufyrirtækja. Segir m.a. í tilkynningu frá Samorku að nálgun Sjónarrandar hafi verið fráleit, rangar ályktanir dregnar og gjörólík fyrirtæki borin saman.

Samorka segir að arðsemi af raforkusölu hafi verið ágæt hér á landi, samkvæmt samantekt Melland Partners að beiðni Landsvirkjunar, og ef horft er til arðsemi af rekstri Nesjavallavirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur.

„Meðalarðsemi eigin fjár Landsvirkjunar var 17,2% árin 2003 til 2007, sem er mun hærra en gerist í Bandaríkjunum og Evrópu, ef marka má nýlega áfangaskýrslu Sjónarrandar ehf. fyrir fjármálaráðuneytið," segir í tilkynningunni.

„Svipað má segja ef horft er á arðsemi heildarfjármagns Nesjavallavirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur, sem er um 14%, en arðsemi bandarískra orkufyrirtækja var á þessum tíma að jafnaði um 10% og evrópskra um 13%. Þá segir HS Orka óhætt að fullyrða að arðsemi fyrirtækisins af orkusölu til stóriðju hafi verið nokkuð meiri en af annarri starfsemi fyrirtækisins og hafi jafnframt verið lykillinn að lágu raforkuverði undanfarinna ára.

Almenn arðsemi íslenskra veitufyrirtækja er hins vegar ekki há, en fyrirtækin eru flest alfarið í eigu opinberra aðila og áherslan hefur gjarnan verið á lág verð og öfluga þjónustu hita-, vatns-, fráveitna, fremur en háa arðsemi fjármagns. Sama virðist raunar gilda um sölu á raforku til almennings, en hún er t.d. um fimmfalt dýrari í Kaupmannahöfn en í Reykjavík.

Á dögunum skilaði Sjónarrönd ehf. áfangaskýrslu um arðsemi af raforkusölu til stóriðju, sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið. Þar eru meðal annars dregnar ályktanir um lága arðsemi af orkusölu til stóriðju með því að horfa til arðsemi af rekstri veitufyrirtækja, sem er algerlega fráleit nálgun.

Jafn fráleitt er að bera síðan saman almenna arðsemi íslenskra orkufyrirtækja (sem mörg eru jafnframt í ýmis konar veiturekstri) við arðsemi orkufyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í áfangaskýrslu Sjónarrandar er notast við rangar tölur, mismunandi uppgjörsaðferðum blandað saman, ólík tímabil borin saman, rangar ályktanir dregnar, gjörólík fyrirtæki borin saman sem væru þau sambærileg og almennt séð óhemju langt seilst í leit að einhverjum neikvæðum hliðum á orkusölu til stóriðju. Samorka vonar að betur verði vandað til verka við endanlegan frágang skýrslunnar."

Sjá nánar á vef Samorku, m.a. fylgiskjöl frá Melland Partners unnið fyrir Landsvirkjun, og fylgiskjöl frá Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku: http://www.samorka.is/Apps/WebObjects/Samorka.woa/1/wa/dp?detail=1000417&id=1000001&wosid=qtuWY84S8cK0bTAplaX24g










Fleiri fréttir

Sjá meira


×