Erlent

Borgarbúar áttu fótum fjör að launa

Flutningabílar eins og hráviði Sjö lík fundust á þessu bifreiðastæði í gær eftir flóðin miklu sem ekki gerðu boð á undan sér.Nordicphotos/AFP
Flutningabílar eins og hráviði Sjö lík fundust á þessu bifreiðastæði í gær eftir flóðin miklu sem ekki gerðu boð á undan sér.Nordicphotos/AFP

Að minnsta kosti tuttugu manns létu lífið vegna skyndiflóða í gær í Istanbúl. Alls hafa nærri þrjátíu manns farist í flóðum við norðvestur­strönd Tyrklands nú í vikunni.

Vegfarendur á fjölfarinni hraðbraut áttu sér einskis ills von þegar vatnið streymdi skyndilega yfir veginn.

„Ég greip dóttur mína, fór úr bílnum og átti fótum mínum fjör að launa,“ sagði Mihat Demirata, einn ökumannanna. „Ég er viss um að mörgum tókst ekki að bjarga lífi sínu.“

Flóðin stafa af gríðarlegu úrhelli, því mesta sem orðið hefur í áttatíu ár. Flóðin urðu til þess að tvær ár innan borgarmarkanna flæddu yfir bakka sína.

Vatnið í ánum varð of mikið til þess að það kæmist eðlilega leið til sjávar. Allt að tveggja metra djúpt vatn flæddi yfir Ikitelli-verslunarhverfið og hraðbraut sem liggur frá Istanbúl til Grikklands og Búlgaríu. Afleiðingin varð meðal annars sú að leiðin til Ataturk-flugvallarins lokaðist.Á stæði fyrir flutningabifreiðar fundust sjö lík og bifreiðarnar lágu eins og hráviði um allt. Sjö önnur lík fundust í lítilli fólksflutningabifreið fyrir utan vefnaðarvöruverksmiðju í Ikitelli-hverfinu. Þar var um að ræða konur sem voru að mæta til vinnu í verksmiðjunni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×