Viðskipti innlent

Hollensk Icesaveskýrsla: Sökin hjá Landsbanka og FME

Tveir prófessorar úr lagadeild Háskólans í Amsterdam hafa unnið skýrslu um Icesave málið fyrir hollensk stjórnvöld. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að Landsbankinn og Fjármálaeftirlitið á Íslandi beri höfuðsök á því klúðri sem Icesave hefur skapað.

Prófessorarnir sem hér um ræðir eru A.J.C. de Moor og C.E. du Perron, báðir sérfræðingar í fjármálarétti við háskólann. Skýrsla þeirra var til umræðu í hollenska þinginu í gær og verður umræðunni haldið áfram í dag. Skýrslan er unnin upp úr opinberum gögnum í Hollandi, þar á meðal skjalfestum samskiptum við Landsbankann og FME.

Meðal annars kemur fram í skýrslunni að hvorki Landsbankinn né FME hafi viljað viðurkenna í hve mikil vandræði Landsbankinn var kominn í sumarið 2008. Þar að auki hafi báðir þessir aðilar þverskallast við að grípa til nauðsynlegra ráðstafana á þeim tíma sem hefði getað dregið úr tjóninu sem síðar varð.

Hollenski seðlabankinn og hollenska fjármálaeftirlitið (DGS) eru einnig gagnrýnd í skýrslu prófessoranna þótt þeir segi að hendur þessara stofnana hafi verið verulega bundnar af regluverki EES, það er þessar stofnanir gátu ekki stöðvað Icesave í Hollandi á lagalegum grundvelli. Leggja prófessorarnir til að þessu verði breytt til að koma í veg fyrir svipuð tilvik í framtíðinni.

Hinsvegar hefðu seðlabankinn og DGS átt að knýja fastar á Landsbankann og FME að gera eitthvað í málinu en takmarkað og misvísandi upplýsingaflæði frá FME hefði hindrað frekari aðgerðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×