Innlent

Þingmannareglur að lögum

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir Forseti Alþingis hugar nú að hertum reglum um þingmenn, þannig að þeir verði skyldaðir til að birta upplýsingar um fjárhag sinn og trúnaðar­störf utan þings.Fréttablaðið/gva
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir Forseti Alþingis hugar nú að hertum reglum um þingmenn, þannig að þeir verði skyldaðir til að birta upplýsingar um fjárhag sinn og trúnaðar­störf utan þings.Fréttablaðið/gva

Áformað er að setja reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum þingmanna inn í þingsköp Alþingis á næsta ári.

Sem stendur hafa þær einungis verið eins konar vinnureglur, sem skrifstofa Alþingis hefur mælt með að þingmenn fari eftir.

Þegar reglurnar voru samþykktar síðastliðið vor var rætt um að gera þær síðar meir að lögum. Þannig mætti skylda þingmenn til að skrá upplýsingar um sig. Einnig mætti refsa þeim fyrir brot á lögunum.

Með því að setja reglurnar í þingsköp verða þær að lögum. Hins vegar eru engin refsiákvæði innan þingskapalaga.

Spurð hvort eftirlit verði haft með því að þingmenn skrái satt og rétt hagsmuni sína og trúnaðarstörf segir Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, það óákveðið. Þetta skýrist þegar lagabreytingin verður gerð.

Spurð hvort rætt sé um að gera um lögin einhvers konar refsiramma, sem er til dæmis sex ár í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, segir Ásta ómögulegt að vita hversu langt verði gengið. Það skýrist í vinnunni fram undan.

Hún segir að litið sé til Svíþjóðar í þessum efnum, þar sem reglurnar eru einnig lögbundnar.

Reglurnar tóku gildi 1. maí og kveða á um að þingmenn skrái upplýsingar um fjárhag sinn og störf utan þings. Upplýsingarnar birtast á vef Alþingis.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×