Innlent

Gjafakort í Borgarleikhúsið slá í gegn

MYND/GVA

Aldrei hafa fleiri gjafakort í Borgarleikhúsið selst en nú í desember og því ljóst að um vinsæla jólagjöf er að ræða. Fimmtán þúsund kort hafa selst í þessum mánuði en fyrra met var frá því í fyrra. „Þá hafa aldrei selst fleiri kort á einum degi en í gær en þá seldust nær 2500 gjafakort í leikhúsið," segir í tilkynningu frá leikhúsinu.

„Almenn gjafakort í Borgarleikhúsið eru opin og gilda á sýningu að eigin vali en einnig hafa sérstök gjafakort á Söngvaseið og Gauragang þar sem geisladiskur og bók fylgja með, notið mikillar hylli. Þessi sprenging í gjafakortasölu leikhússins kemur í kjölfar aðsóknarmesta ársins í sögu Borgarleikhússins en nú í haust hafði áskriftarkortasala tuttugufaldast á rúmu ári," segir ennfremur.

„Við höfum aldrei upplifað annað eins og gjafakortasöluna fyrir þessi jól og þó hef ég verið hér í leikhúsinu í nær tuttugu ár. Stemningin er einstök enda gestir okkar í sannkölluðu jólaskapi þegar þeir heimsækja okkur hér í miðasölunni. Hér hefur verið röð út úr dyrum alla síðustu viku og því höfum við fjölgað starfsfólki til að anna eftirspurn", segir Guðrún Stefánsdóttir miðasölustjóri Borgarleikhússins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×