Innlent

Þorláksmessuskata ævargömul hefð á Vestfjörðum

Sigríður Mogensen skrifar

Þorláksmessuskata er ævagömul hefð á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu.

í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti að vera sem mestur munur á föstumat og hátíðarmat. Og ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þó hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling.

Aðalreglan var að borða lélegan fisk á Þorláksmessu og mismunandi var eftir landshlutum hvað hentaði best. Í desember veiddist skata helst á Vestfjarðarmiðum. Hún var algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum, enda þótti hún enginn herramannsmatur.

Smám saman tókst Vestfirðingum að gera skötuna ljúffenga og smitaði þessi venja út frá sér. Um miðja tuttugustu öld byrjuðu margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember. Og svo bættust veitingahús í hópinn og þar með varð þetta tíska.

Veitingahús bæjarins bjóða mörg upp á skötu í dag og hafa sumir leikskólar pantað skötu fyrir börnin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×