Viðskipti innlent

Samningar við erlenda kröfuhafa bankanna í biðstöðu

Samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans eru í biðstöðu og munu tefjast vegna vandamála við að meta eignir þeirra. Þetta kemur fram í frétt á Reuters.

Reuters ræðir við Indriða Þorláksson ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins um málið sem segir að óformlegar viðræður við kröfuhafana séu hafnar en að lokasamkomulag muni tefjast um nokkrar vikur.

Áður var talið að samkomulag myndi liggja fyrir þann 18. maí en Indriði telur að eins og staðan sé nú muni það nást í fyrrihluta júní. „Róðurinn hefur reynst þyngri en við áttum von á," segir Indriði.

Stærsti þröskuldurinn í þessum viðræðum er að fyrirhugaður efnahagsreikningur nýju bankanna þriggja liggur ekki fyrir. Þegar það hefur verið afgreitt er ætlunin að nýju bankarnir gefi út skuldabréf til þeirra gömlu fyrir upphæðunum.

Fram kemur í frétt Reuters að fjármálaráðuneytið telji að sú óvissa sem er í efnahagslífinu og möguleg endurskipulagning á lánum geri það að verkum að „óraunhæft" sé að gera ráð fyrir samkomulagi við kröfuhafnana um eitt verð fyrir eignirnar.

Þar að auki skortir rekstraráætlanir frá nýju bönkunum og fleiri fjárhagslegar upplýsingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×