Innlent

Kemur í veg fyrir hindranir

Markaður Við reglusetningu ætti að spyrja um áhrif á samkeppnismarkaði, að mati Samkeppniseftirlitsins.
Markaður Við reglusetningu ætti að spyrja um áhrif á samkeppnismarkaði, að mati Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftir­litið beinir því til Jóhönnu Sigurðar­dóttur forsætisráðherra í nýju áliti að hún beiti sér fyrir því að stjórnvöldum verði gert skylt að framkvæma staðlað samkeppnismat við undirbúning lagasetningar og stjórnvaldsfyrirmæla.

Í áliti eftirlitsins er gerð tillaga að einföldu mati, þar sem svara þarf fjórum spurningum um áhrif lagasetningar eða stjórnvalds­fyrirmæla á samkeppnismál.

Með því að fylgja stöðluðu ferli þar sem hugað er að samkeppnis­sjónarmiðum má að mati Samkeppniseftirlitsins auka líkur á að reglusetning nái markmiðum sínum án þess að takmarka samkeppni. Það geti stuðlað að því að markaðir haldist opnir og þar með sé komið í veg fyrir óþarfa opinberar aðgangshindranir.

„Slík aðferðafræði við opinbera stjórnsýslu stuðlar að kraftmiklu atvinnulífi til lengri tíma og eykur ávinning neytenda,“ segir í áliti Samkeppniseftirlitsins.

Eftirlitið vill að stjórnvöld spyrji sig við undirbúning lagasetningar hvort reglusetning auki líkur á því að fjöldi fyrirtækja takmarkist eða dragist saman, og hvort hún takmarki möguleika fyrirtækja til að mæta samkeppni.

Þá ætti að spyrja hvort hún takmarki frumkvæði fyrirtækja til að stunda virka samkeppni. Sé svarið við einhverri af þessum spurningum jákvætt ætti að fara í ítarlegri greiningu á áhrifum reglusetningarinnar á samkeppni. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×