Viðskipti innlent

Höfnun Icesave setur AGS samkomulagið í uppnám

Ekki er hægt að skilja orð Franek Rozwadowski fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í samtali við Bloomberg öðruvísi en svo að ef alþingi hafnar Icesave-samningnum sé samkomulag Íslands við AGS þar með komið í uppnám.

„Ef alþingi hafnar Icesave samningnum við Bretland og Holland myndi slíkt skapa mikla óvissu," segir Rozwadowski í samtalinu við Bloomberg. „Ein spurningin sem vaknar er hver yrðu viðbrögð Norðurlandanna? Önnur spurning væri fyrir meðlimi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: Hvað segir höfnunin um loforð Íslands um að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar?"

Í samtalinu tekur Rozwadowski fram að Icesave samningurinn hafi ekki verið hluti af upphaflegu samkomulagi AGS og Íslands og að staðfesting alþingis á Icesave sé ekki beint skilyrði fyrir endurskoðuninni á samningnum.

„Hinsvegar hafa hin Norðurlöndin gefið í skyn að niðurstaða í Icesave málinu sé skilyrði fyrir því að lán þau til Íslands sem búið er að skrifa undir verði greidd og þau lán eru nauðsynleg til að fjármagna áætlun AGS," segir Rozwadowski.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×