Viðskipti innlent

Engin vaxtalækkun það sem eftir lifir árs

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Greiningardeild Kaupþings telur að stýrivextir haldist óbreyttir og engin vaxtalækkun muni eiga sér stað það sem eftir lifir árs. Líklegt er að vextir hækki með afnámi gjaldeyrishafta.

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir óbreyttum vöxtum Seðlabankans á vaxtaákvörðunarfundi bankans á morgun. Telur Greiningardeildin að innlánsvöxtum Seðlabankans verði haldið óbreyttum í 9,5% og að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 12%

Stýrivaxtaspáin er nákvæmlega sama niðurstaða og Greiningardeid Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbankans hafa komist að.



Engin vaxtalækkun það sem eftir lifir árs


Kaupþingsmenn telja enga vaxtalækkun vera í spilunum það sem eftir lifir árs, enda hafa orðið sinnaskipti í Seðlabankanum frá því gengi krónunnar veiktist á ný í mars og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom þeirri skoðun sinni á framfæri að farið væri of geyst í vaxtalækkunum.

Fræðilega séð gæti þó krónan styrkst á ný og breytt hugsunarhætti Seðlabankans. Bendir Greiningardeildin á eftirfarandi ummæli sem komu fram í síðustu fundargerð Peningastefnunefndar og eru meðal annars ástæðan fyrir spá Greiningardeildarinnar:

„…álitu nefndarmenn að ekki væri ráðlegt að slaka frekar á aðhaldi í peningamálum að svo stöddu, eða þar til krónan hefði styrkst verulega að nýju miðað við núverandi stöðu hennar. Jafnvel væri nauðsynlegt að hækka stýrivexti ef krónan styrktist ekki á næstunni."

Rökstuðningur Peningastefnunefndar fyrir að halda vöxtum óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi var umtalsvert lægra gengi krónu en peningastefnunefnd taldi viðunandi í fundargerð sinni í mars og aukning í verðbólgu og verðbólguvæntingum.

„Þótt langtímaáætlun í ríkisfjármálum og endurskoðun kjarasamninga séu jákvæð skref er það skoðun peningastefnunefndarinnar að veik staða krónunnar komi í veg fyrir frekari vaxtalækkun. Fyrrnefndir þættir ættu þó að auka tiltrú á krónuna næstu misserin og þar með stuðla að gengishækkun hennar. Nefndarmenn telja jafnframt að styrkist krónan ekki, gæti reynst nauðsynlegt að hækka vexti."



Líklegt að vextir hækki með afnámi gjaldeyrishafta


Krónan hefur ekki styrkst frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi og telur Greiningardeildin að Peningastefnunefndin muni sýna talsverða biðlund áður hún bregst við með hækkun vaxta.

Greiningardeildin telur að bankinn muni jafnvel hækka stýrivexti sína þegar afléttingu gjaldeyrishafta verður orðið vel ágengt. Þau skref sem tekin verða á allra næstu mánuðum eru hinsvegar tiltölulega áhættulítil út af fyrir sig fyrir stöðugleika krónunnar, en þar er einkum um að ræða niðurfellingu hafta á erlenda fjárfestingu.

Óhætt er að taka undir þau sjónarmið Greiningardeildarinnar að vextir hækki með afléttingu gjaldeyrishafta þar sem háir vextir eru liklegir til að laða að erlenda fjárfesta og styrkja í leiðinni gengi íslensku krónunnar.

Það mun þó alfarið velta á áhættusækni fjárfesta, hvort þeir yfir höfuð treysti sér til þess að fjárfesta í íslenskri krónu í þeim tilgangi að hagnast á vaxtamuninum milli Íslands og annarra landa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×