Viðskipti innlent

Kaupþing með Haga í gjörgæslu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Merki Kaupþings
Merki Kaupþings Mynd/Björn Þór

Nýja Kaupþing er með þriggja manna teymi sérfræðinga á sviði útlána og fyrirtækjaráðgjafar starfandi í Högum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er hlutverk sérfræðinganna að vernda hagsmuni bankans og leggja mat á verðmæti eigna félagsins.

Bankinn er með veð í 95,7 prósenta hlut í Högum eftir að eignarhaldsfélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, 1998 ehf., tók 30 milljarða króna lán hjá bankanum til að kaupa Haga af Baugi. Ef 1998 ehf. getur ekki greitt lánið getur Nýja Kaupþing gengið að veðinu og tekið yfir þau fyrirtæki sem starfa innan móðurfélagsins Haga og áður mynduðu innlenda starfsemi Baugs. Lánið er með einum gjalddaga árið 2010.

Bankanum mun af þessum sökum vera heimilt að hafa sérfræðingana starfandi innan fyrirtækisins. Bankinn er sem stendur að meta hvaða aðgerða eigi að grípa til ef 1998 ehf. getur ekki staðið í skilum, samkvæmt heimildum blaðsins.

Þessu vísar Finnur Árnason, forstjóri Haga, á bug í samtali við Morgunblaðið og segir sérfræðinga Kaupþings vera að fara yfir bókhaldið vegna svokallaðs virðisrýrnunarprófs.

Hann segir Capacent hafa séð um prófið undanfarin ár, en nú sé það fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings. Kaupþing hafi einfaldlega gefið hagstæðasta tilboðið í verkið, en prófið sé framkvæmt að beiðni endurskoðenda fyrirtækisins.

Hagar er móðurfélag fyrirtækja á borð við Bónus, Hagkaupa, 10-11, Útilíf og tískuverslanirnar Zara, Debenhams, Topshop, Oasis og fleiri.








Tengdar fréttir

Keypti Haga á 30 milljarða

Fjárfestingarfélagið Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, fékk þrjátíu milljarða króna lán til að kaupa 95 prósenta hlut í Högum af Baugi Group í gegnum félagið 1998 ehf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×