Viðskipti innlent

Kröfuhafar SPM funda um nauðasaming í dag

Fundur með kröfuhöfum Sparisjóðs Mýrasýslu verður haldinn í dag, þriðjudag, að Hilton Hotel Nordica í Reykjavík. Á fundinum verður fjallað um núverandi stöðu sparisjóðsins. Þá verður á fundinum leitað eftir meðmælum kröfuhafa með frumvarpi að nauðasamningi, sem öllum þekktum kröfuhöfum hefur áður verið kynnt.

 

Í tilkynningu segir að ff nægilegur fjöldi kröfuhafa veitir meðmæli með nauðasamningsumleitunum hyggst bráðabirgðastjórn senda formlega beiðni til héraðsdóms, fyrir 2. október n.k., um heimild til að leita nauðasamnings. Ella telur bráðabirgðastjórn að henni beri að vísa málefnum SPM til Fjármálaeftirlitsins til ákvörðunartöku.

 

Bráðabirgðastjórn skipuð af Fjármálaeftirlitinu ræður yfir sparisjóðnum og meðan svo er gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustugerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart honum og ef sparisjóðurinn hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar.

 

Yfirráðum bráðabirgðastjórnar yfir SPM lýkur 2. október n.k., nema bráðabirgðastjórn hafi þá lagt fyrir héraðsdóm kröfu um að sjóðurinn verði tekinn til slita, honum veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga, eða ný stjórn hafi verið kjörin til að leysa bráðabirgðastjórn af hólmi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×