Viðskipti innlent

Tæplega 20.000 manns eru á vanskilaskrá

Tæplega 20.000 manns, eða 7% þeirra sem eru fjárráða, eru á vanskilaskrá og 60% þeirra stefna í gjaldþrot. Fjórðungur þeirra sem flust hafa til Noregs eru með vanskil í löginnheimtuferli og 11% barna eiga foreldra í vanskilum.

Einstaklingum í vanskilum fjölgaði mikið eftir bankahrunið síðastliðið haust og í dag eru þeir 19.767 sem ekki standa í skilum. Þetta kemur fram í úttekt sem Creditinfo hefur unnið og RUV greinir frá.

Samkvæmt fréttinni leggjast alvarleg vanskil þyngst á fólk á aldrinum 30-50 ára, þann aldurshóp sem er með flest börn á framfæri. Þetta þýðir að ríflega 11% íslenskra barna búa nú við þær aðstæður að foreldrar þeirra eru með skuldir í löginnheimtuferli.

Þá er staða einstæðra mæðra mjög erfið en hlutfall þeirra með mál í vanskilum er um 13% þrátt fyrir að konur mælist almennt með lægra hlutfall í vanskilum í samanburði við karlmenn. Þá vekur einnig athygli að 24% þeirra sem flust hafa til Noregs eru í vanskilum.

Almennt enda 60% þeirra sem eru skráðir eru á vanskilaskrá í greiðsluþroti, það er verða gjaldþrota eða fá á sig árangurslaust fjárnám.

Hlutfall þeirra sem eru í vanskilum er hærra á þeim búsetusvæðum þar sem atvinnulíf hefur með áberandi hætti dregist saman á síðustu árum. Á Reykjanesi eru ríflega 11% þeirra sem eru fjárráða í vanskilum. Meðaltalshlutfall fyrir landið allt er um 7%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×