Viðskipti innlent

Vilja endurheimta traust

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á kynningarfundi í gær Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, kynntu í gær nýtt rit um stjórnarhætti fyrirtækja.
Á kynningarfundi í gær Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, kynntu í gær nýtt rit um stjórnarhætti fyrirtækja. Fréttablaðið/Valli
Sjaldan hefur verið meiri þörf en nú á leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja, að mati Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra. Nýja útgáfu slíkra leiðbeininga sem kynnt var í gær sagði hann þó vekja blendnar tilfinningar, en Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin kynntu í gær þriðju og mikið endur­bætta útgáfu leiðbeininganna. Fyrsta útgáfa þeirra kom út árið 2004 og var endurbætt ári síðar, en hefur síðan verið óbreytt.

Gylfi segir blendnar tilfinningar þó ekki til komnar af því að reglurnar séu slæmar, þvert á móti séu þær um margt ágætar. „Skýringin á blendnum tilfinningum er einfaldlega forsagan. Ekki hefur gengið nógu vel að fá þá sem áttu að fylgja slíkum reglum til þess að gera það,“ segir hann. Þörfin á gagnsæi og skýrum reglum um stjórnarhætti sé hins vegar aldrei meiri en á endur­reisnar- og umbrotatímum sem þessum.

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr fara allt of mörg fyrirtæki nú í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og lenda jafnvel í fanginu á fjármálafyrirtækjum sem um tíma að minnsta kosti eru í eigu ríkisins. Þetta er auðvitað afleitt ástand á alla kanta og býður heim þeirri hættu að stjórnarhættir verði eitthvað sérkennilegir, fyrirtækjum mögulega mismunað, fákeppnis­sjónarmið ekki höfð til hliðsjónar og ýmislegt annað af þeim toga. Það hlýtur því að vera sérstakt áhersluatriði hjá þeim sem halda utan um þetta ferli allt saman að reyna að sjá til þess að leiðbeiningum á borð við þessar sé fylgt.“

Í inngangi leiðbeininganna kemur fram að viðtökur við fyrri útgáfu hafi valdið nokkrum vonbrigðum. „Því miður má segja að ófarir undanfarinna missera bendi til brotalama í stjórnarháttum margra fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.“

Í kynningu Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, kom fram að leggja ætti aukna áherslu á alla eftirfylgni við að reglunum yrði framfylgt í fyrirtækjum landins. Þannig yrði haft samstarf við nýtt Rannsóknasetur um stjórnar­hætti hjá Háskóla Íslands, um að greina og kanna upptöku reglnanna í fyrirtækjum landsins. Þær ættu enda víða við, ekki bara hjá skráðum fyrirtækjum. Þá kæmu þær til með að gagnast fjárfestum, stjórnar­mönnum, fjölmiðlafólki og hverjum þeim sem veita vildi viðskiptalífinu aðhald.

Reglurnar væru fyrsta skrefið í að koma á hugarfarsbreytingu þar sem fólk sætti sig ekki við að eiga viðskipti við fyrirtæki sem stöðugt störfuðu á „gráum svæðum“ regluverks. Þá mæltist hann til þess að ríkisstjórnin kæmi leiðbeiningunum til stjórnenda opinberra fyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×