Innlent

Forsetinn fjallaði um framtíð norðurslóða

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun opnunarræðu á alþjóðlegu fræðaþingi sem haldið er af Háskólanum í Bergen í Noregi. Fræðaþingið fjallar um framtíð norðurslóða, aukið mikilvægi þeirra á komandi árum og nauðsyn víðtækra rannsókna og stefnumótunar með sérstakri áherslu á tækifæri og hlutverk Norðurlanda.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að í ræðu sinni sem bar heitið „The new North: An intellectual frontier" hafi forsetinn áréttað að síðastliðin tíu ár eða svo hefði hann hvatt til aukinna rannsókna, nýrrar stefnumótunar og víðtækrar samvinnu ríkja á norðurslóðum, meðal annars með þátttöku í stofnun Rannsóknarþings norðursins. „Þar koma saman fræðimenn, leiðtogar þjóða og héraða sem og embættismenn og sérfræðingar. Mikilvægi norðurslóða á komandi árum helgaðist einkum af því að loftslagsbreytingar gerast þar mun hraðar en annars staðar í veröldinni, þar er að finna um fjórðung vannýttrar orku heimsins og bráðnun íss getur opnað nýjar siglingaleiðir milli Asíu og Evrópu. Þessar breytingar hafa í för með sér að margvíslegar spurningar vakna, svo sem um eðli milliríkjasamninga og mannréttindi þjóðarbrota."

Þá segir að breytingar á norðurslóðum leiði meðal annars til þess að Norðurlönd hljóti að skoða samvinnu sína við Rússland, Kanada og Bandaríkin á nýjan hátt og ljóst sé að Evrópusambandið sýni þessu svæði stóraukinn áhuga. Jafnframt knýja þjóðarbrot og þjóðflokkar sem átt hafa langa búsetu á þessum slóðum á um aukin réttindi og lýðræðislega aðild að ákvörðunum.

„Forseti rakti einnig hvernig Norðurskautsráðið hefði þróast á jákvæðan hátt og nýta mætti það sem fyrirmynd ríkjasamstarfs á Himalajasvæðinu, en bráðnun jökla þar mun skapa þjóðum í Asíu geigvænleg vandamál. Forseti hvatti til þess að háskólar og aðrar stofnanir tækju saman höndum um að mynda umræðuvettvang þar sem framtíð norðurslóða og Himalajasvæðisins væri á dagskrá og athyglinni væri beint að því hvað þjóðirnar á þessum ólíku svæðum geta lært hver af annarri. Norðurlönd hefðu í þessum efnum miklu hlutverki að gegna en nauðsynlegt væri að stefnumótun komandi ára byggðist á víðtækum rannsóknum vísindamanna og samvinnu háskóla og fræðastofnana," segir ennfremur.

Ræðu forseta má nálgast á vefsetri forsetaembættisins, forseti.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×