Enski boltinn

Guðjón: Erum í vondri stöðu

Nordic Photos/Getty Images

„Ég er gríðarlega vonsvikinn og sömu sögu er að segja af leikmönnum mínum. Ég sagði við strákana að við mættum ekki leika gegn okkur og það er nákvæmlega það sem gerðist," sagði svekktur stjóri Crewe, Guðjón Þórðarson, við heimasíðu Crewe eftir tap hans manna fyrir Stockport í kvöld.

Tapið gerir það að verkum að Crewe verður að leggja Leicester í lokaumferð deildarinnar til að eiga möguleika á að sleppa við fall. Það verður ekki auðvelt enda er Leicester búið að rúlla deildinni upp.

„Það var pressa á strákunum og sumir réðu einfaldlega ekki við pressuna. Menn urðu síðan örvæntingarfullir og fóru að gera mistök," sagði Guðjón sem gerir sér grein fyrir alvarlegri stöðu liðsins.

„Við erum augljóslega í mjög vondri stöðu og hugsanlega getur aðeins himnafaðirinn bjargað okkur. Við þurfum á mikilli heppni að halda þegar liðin í kringum okkur spila á morgun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×