Innlent

Telja Árborg stefna í tæknilegt þrot

Ráðhúsið á Selfossi Sjálfstæðismenn í Árborg segja sveitarfélagið hafa tapað nær tveimur milljörðum á tveimur árum og að enn eigi að bæta við tapið.
FRéttablaðið/Stefán
Ráðhúsið á Selfossi Sjálfstæðismenn í Árborg segja sveitarfélagið hafa tapað nær tveimur milljörðum á tveimur árum og að enn eigi að bæta við tapið. FRéttablaðið/Stefán

Fulltrúar minnihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Árborgar sögðu sig frá samstarfi við meirihlutann um gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og greiddu atkvæði gegn áætlun­inni þegar hún var samþykkt í gærkvöldi.

„Samkvæmt áætlun meirihlutans verður eigið fé neikvætt um 264 milljónir. Í raun er því lögð fram hér áætlun þar sem stefnir í tæknilegt gjaldþrot bæjarsjóðs um mitt næsta ár þegar eigið fé bæjarsjóðs verður uppurið,“ segir í bókun sjálfstæðismanna. „Fjárhagsáætlun meirihlutans gerir ráð fyrir 629 milljóna króna tapi af rekstri árið 2010. Tapið er svipað og á yfirstandandi ári en það er áætlað 640 milljónir.“

Sjálfstæðismenn segja uppsafnað tap fyrir árin 2008 til 2010 samkvæmt fjárhagsáætluninni vera 2.480 milljónir króna eða yfir tvær milljónir á hverjum degi. „Það er ekki auðvelt verkefni sem bíður næstu bæjarstjórnar því fyrr frekar en síðar þarf að ná jafnvægi í rekstri. Ekki er útlit fyrir greiðsluþrot á árinu 2010 miðað við að það takist að fá 530 milljónir í ný lán á árinu. Meiri óvissa er með 2011 og hvernig unnt verður að tryggja fjármagn og forðast greiðsluþrot bæjarsjóðs,“ segja sjálfstæðismenn og vísa ábyrgð á stöðunni á hendur meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sem starfað hafi frá því í desember 2006.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×