Skoðun

Grænþvottur í Kaupmannahöfn?

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Lokasprettur loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn hefst í dag. Ráðherrar tínast til Hafnar hver á fætur öðrum og fyrir lok vikunnar þarf að innsigla samkomulag um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Sjaldan hefur jafnmikið verið undir á einni SÞ-ráðstefnu. Ef ríki heims grípa ekki til raunhæfra aðgerða strax til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda bendir allt til þess að hlýnun lofthjúpsins muni kalla fram hamfaralíkar breytingar á veðurfari og lífríki jarðar á þessari öld. Hér þarf ekki að ýkja neitt, nóg er að kynna sér niðurstöður Vísindanefndar SÞ um loftslagsbreytingar til að sannfærast um nauðsyn þess að grípa til róttækra aðgerða. Afleiðingar hlýnunar lofts og sjávar geta kallað miklar hörmungar yfir mannkynið.

Frá því á loftslagsráðstefnunni á Balí árið 2007 hafa íslensk stjórnvöld lagt sig fram um að vera hluti af lausninni í samningaviðræðum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Það var grundvallarbreyting á afstöðu Íslands. Við höfum skuldbundið okkur til þess að mæta kröfunni um að hlýnun fari ekki yfir 2°C á þessari öld. Þá tókum við stöðu við hlið Evrópusambandsins í samningaviðræðunum, af ábyrgð og festu, sem ég er mjög stolt af. Það er ábyrgðarhluti lands sem telst meðal ríkustu þjóða heims - bæði fyrir og eftir hrun - að leggja sitt af mörkum til þess að leysa loftslagsvandann. Við höfum sett okkur losunarmarkmið hér heima og einnig lagt til að endurheimt votlendis reiknist ríkjum til tekna í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Næstu dagar munu ráða úrslitum um það hvort leiðtogar rúmlega 190 ríkja búi yfir festu og pólitískum kjarki sem dugar til að ná raunhæfu og haldgóðu samkomulagi í Kaupmannahöfn. Ef það bregst er hætt við að niðurstaðan verði grænþvottur, þ.e. að leiðtogarnir setji engar tölur á blað og skuldbindi sig ekki til raunhæfra aðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og samningaviðræður sigli í strand. Það má ekki gerast.

Höfundur er formaður umhverfisnefndar Alþingis.

 




Skoðun

Sjá meira


×