Enski boltinn

Enn liggur leiðin niður á við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Viduka. Táknræn mynd fyrir gengi Newcastle.
Mark Viduka. Táknræn mynd fyrir gengi Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Newcastle gerði í kvöld markalaust jafntefli við Portsmouth á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í liði Portsmouth sem er í fjórtánda sæti deildarinnar með 38 stig, sjö stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Newcastle er hins vegar í miklum vandræðum. Liðið er í fallsæti með 31 stig, rétt eins og Middlesbrough sem er reyndar með lakara markahlutfall.

Ekkert lið hefur unnið jafn fáa sigra í deildinni og Newcastle eða sex talsins. Liðið þarf að minnsta kosti að vinna einn leik til viðbótar til að eiga einhverja vonarglætu um að halda sæti sínu í deildinni en síðast vann Newcastle í febrúar síðastliðnum - þá gegn botnliði West Brom. Það er eini sigur liðsins til þessa á árinu.

Þeir Michael Owen, Obafemi Martins og Mark Viduka voru í þriggja manna sóknarlínu Newcastle. Allt þekktir markaskorarar en þrátt fyrir að hafa fengið góð færi tókst þeim ekki að skora í kvöld.

David James varði frá þeim Owen og Martins er þeir voru sloppnir í gegnum vörn Portsmouth. En Steve Harper varði einnig vel frá Nadir Belhadj og þá átti Richard Hughes skalla í stöng undir lok leiksins. Portsmouth hefði þar getað stolið sigrinum.

Áhorfendur á St. James' Park púuðu á sína menn í leikslok enda hefur Newcastle aðeins skorað fjögur mörk í síðustu átta leikjum sínum.

„Við þurfum að vinna sigur. Tíminn er að hlaupa frá okkur," sagði Alan Shearer, stjóri Newcastle, eftir leikinn. Hann var þrátt fyrir allt bjartsýnn fyrir næsta leik en þá mætir Newcastle liði Liverpool á Anfield.

„Við gætum fengið eitthvað á Anfield og svo eigum við tvo heimaleiki. Við verðum að fá sex stig úr þeim. Ég tel að þetta muni ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni en það er ljóst að við þurfum að fara að koma okkur á skrið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×