Viðskipti innlent

Fitch: Ríkisfjármál Íslands þau veikustu af metnum þjóðum

Fitch Ratings segir í nýju mati sínu á Íslandi að ríkisfjármálin séu mest veikburða af þeim þjóðum sem Fitch metur. Hinsvegar megi benda á að tekjur Íslendinga séu háar og skattagrunnurinn sterkur miðað við aðrar þjóðir sem hafa sama lánshæfismat eins og Ungverjaland og Indland.

Sem kunnugt er af fréttum hefur Fitch ákveðið að viðahalda lánshæfismati sínu á ríkissjóði í BBB- en þó áfram með neikvæðum horfum.

Fitch segir að það sem gæti lækkað lánshæfismatið sé þrennt. Að Icesave samkomulagið gangi ekki eftir, að skuldahlutfallið versni frá því sem gert er ráð fyrir eftir 2010 og að ekki takist að koma á stöðugleika á gengi krónunnar.

Fram kemur í skýrslu Fitch sem fylgir matinu að Fitch reiknar með að beinn kostnaður við að endurfjármagna bankakerfið muni nema 40% af landsframleiðslu landsins. Sé þetta svipað og hjá sumum Asíu-þjóðum í kreppunni þar á tíunda áratug síðustu aldar.

Þá telur Fitch jákvætt að svo virðist sem engar hindranir séu lengur fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ljúki við fyrstu endurskoðun sína á samstarfsáætlun sjóðsins og Íslands. Slíkt myndi leiða til þess að önnur greiðslan frá AGS berst í hús sem og lánin frá Norðurlöndunum, samtals nærri 4 milljarðar dollara.

Geta Íslands til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar í náinni framtíð er viðvarandi áhyggjuefni að mati Fitch.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×