Innlent

Leita hjónabandsráðgjafar vegna efnahagserfiðleika

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórhallur Heimisson segir að þegar öllu sé á botninn hvolft séu efnahagserfiðleikar yfirleitt ástæða fyrir erfiðleikum í hjónabandinu.
Þórhallur Heimisson segir að þegar öllu sé á botninn hvolft séu efnahagserfiðleikar yfirleitt ástæða fyrir erfiðleikum í hjónabandinu.
Efnahagsaðstæður eru í öllum tilfellum nefndar sem ástæða fyrir því að fólk leitar sér hjónabandsráðgjafar, segir Þórhallur Heimisson, prestur í Hafnarfirði. Þórhallur hefur verið með hjónanámskeið og verið með einkatíma fyrir hjón í erfiðleikum.

Kaþóska kirkjan á Írlandi gaf um helgina út skýrslu þar sem fram kemur að stöðugt fleiri nefna efnahagsaðstæður sem ástæður erfiðleika í hjónabandinu. Hið sama virðist eiga við um Íslendinga. „Það má segja að þegar fólk leitar sér ásjár þá er það alltaf út af fjölbreyttum ástæðum, það er aldrei neitt eitt. En ég verð að segja að núna í vor að þá finnst mér að öll pör sem koma, þó að það séu alls konar ástæður, að það eru alltaf efnahagserfiðleikar líka sem valda því að fólk er í svo mikilli klemmu við að finna lausn á öðrum vandræðum," segir Þórhallur. Þegar öllu sé á botninn hvolft séu efnahagsaðstæður alltaf stór þáttur í erfiðleikum fólks. Þá segist Þórhallur jafnframt finna fyrir því að fólk sé að lenda í greiðsluerfiðleikum.

Þórhallur segir þó ekki að aðsókn hjóna í einkaviðtöl hjá sér hafi aukist, en aðsóknin hafi reyndar alltaf verið mikil í gegnum tíðina. Hann segist hins vegar hafa byrjað með svokölluð hamingjunámskeið í vor, þar sem hann fjallar um það hvað hægt sé að gera til að fást við aðstæður eins og þær eru núna. Aðsókn að þessum námskeiðum hafi vaxið jafnt og þétt þangað til að hann fór að tala fyrir fullu húsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×