Erlent

Sendir flugherinn á veðrið

Óli Tynes skrifar

Það snjóar býsnin öll í Moskvu á veturna. Það bæði truflar umferð og kostar höfuðborg Rússlands heilan helling af rúblum á ári hverju í snjóhreinsun. Jafnfallinn snjór í Moskvu getur verið sextíu sentimetrar í góðum byl.

Risastórt batterí er til þess að takast á við þetta. Það eru fimmtíu þúsund götusóparar, fimmþúsund og áttahundruð trukkar og tuttugu og sjö tröllvaxnar snjóbræðslustöðvar.

Yuri Luzhkov borgarstjóri hefur nú sagt veðrinu stríð á hendur. Í orðsins fyllstu merkingu.

Flugherinn kallaður út

Hann ætlar að senda rússneska flugherinn á móti snjóbyljum sem stefna á borgina. Flugherinn á að dreifa þurrum ís og joði yfir óveðursskýrin til þess að leysa þau upp.

Með þessu telur borgarstjórinn sig geta minnkað snjókomuna í Moskvu um tuttugu prósent.

Það myndi mjög auðvelda alla umferð og spara borginni fjórar milljónir dollara í hreinsunarkostnað.

Það er eiginlega hægt að segja að með þessu sé Luzkov að herða stríð sitt gegn veðurguðunum.

Hann hefur þegar gert tilraunir með það á sumrin að eyða skýjum sem stefna skrúðgöngum hans í hættu.

Þorpin kaffærð

Ekki eru allir hrifnir af þessum stríðsreksti borgarstjórans. Ekki umhverfissinnar og ekki íbúar í litlum þorpum í kringum Moskvu.

Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ský sem eru leyst upp falla til jarðar með allan sinn snjó. Beint ofan á litlu þorpin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×