Innlent

Hafa leigt frá sér 2.306 tonn af kvóta

Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hefur leigt frá sér 2.306 tonn af þeim 3.241 þorskígildistonni kvóta af bolfiski sem fyrirtækið fékk til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu, sem hófst 1. september 2009.

Miðað við meðalverð á kvótamarkaði hinn 24. september síðastliðinn er heildarverðmæti kvóta sem fyrirtækið hefur leigt frá sér undanfarnar sjö vikur um 440 milljónir króna.

Skipin tvö sem Eskja gerir út og skráð eru fyrir bolfiskkvótanum eru nóta- og togveiðiskip. Þau stunda ekki veiðar á bolfiski, eins og þorski, ýsu og ufsa, heldur aðeins á uppsjávarfiski, eins og síld, kolmunna og loðnu.

„Við höfum verið að skipta aflaheimildum í bolfiski yfir í uppsjávarheimildir og höfum auk þess verið í millibilsástandi," segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá Eskju. Hann segir að fyrirtækið hafi skipt ufsa-, karfa-, og grálúðukvóta fyrir síldarkvóta sem nótaskipin hafa veitt úr norsk-íslenska síldarstofninum í norskri lögsögu.

Kvóti í ufsa, karfa og grálúðu nemur alls 940 tonnum af þeim 2.306 tonnum sem fyrirtækið hefur leigt frá sér undanfarnar sjö vikur. Verðmæti kvóta í þeim tegundum er um 80 milljónir af alls um 440 milljóna viðskiptum. Að auki hefur fyrirtækið m.a. þegar leigt frá sér 1.108 tonn af 1.883 tonna þorskkvóta ársins.

Páll leggur áherslu á að þessi viðskipti séu í fullu samræmi við gildandi lög og reglur. Fyrirtækið hafi verið í ákveðnu millibilsástandi frá því að togarinn Hólmatindur var seldur úr landi í lok árs 2007. Páll segir að ákvörðun stjórnvalda um að skerða þorskaflaheimildir um 30 prósent sumarið 2007 hafi kippt fótum undan rekstri Hólmatinds og rekstri frystihúss fyrirtækisins. Eskja hafi leitað að nýju og hagkvæmara skipi í stað Hólma­tinds en bankahrunið og efnahagserfiðleikar hafi kippt fótunum undan þeim hugmyndum í bili. Markmið fyrirtækisins sé hins vegar að hefja bolfiskveiðar á ný um leið og aðstæður leyfa.

peturg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×