Viðskipti innlent

Afskrift lána Björgólfsfeðga: „Ég skil þetta ekki“

Gunnar Örn Jónsson skrifar
„Það eru engar forsendur fyrir því að afskrifa þetta lán," segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands. „Ég hef ekki hugmynd um hvort þeir geti borgað þetta lán en ef þeir geta borgað, af hverju á þá að afskrifa það? Það verður að reyna á það hvort þeir geti greitt lánið en það er ekki hægt að semja um afskrift á láninu, þetta á hreinlega að fara í innheimtu og fyrir dómstóla," segir Vilhjálmur.

Eins og kom fram á forsíðu Fréttablaðsins í morgun, vilja Björgólfsfeðgar að Kaupþing afskrifi þrjá milljarða af sex milljarða króna skuld þeirra við bankann.

Vilhjálmur vitnaði til viðtals Stöðvar 2 við Ásgeir Friðgeirsson, talsmanns Björgólfsfeðga, frá 7. október þar sem hann talar um hversu sterkur fjárfestir Björgólfur Thor Björgólfsson er.

„Það er mikilvægt að hafa það í huga að Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson eru alþjóðlegir fjárfestar að ógleymdri mjög sterkri stöðu Björgólfs Thors í Novator Properties," sagði Ásgeir og benti að lokum á að engin hætta væri á því að Björgólfur Thor færi á hausinn.

Vilhjálmur segir lánið vera eðlilega kröfu Kaupþings og slík mál eigi að fara dómstólaleiðina. „Ég skil þetta mál hreinlega ekki. Skilanefndin hefur ekkert leyfi til að afskrifa þetta lán fyrr en eftir árangurslaust fjárnám og aðrar fullnustuaðgerðir," segir Vilhjálmur Bjarnason í viðtali við Vísi.

Auk þess, sagði hann að málefni um lán til starfsmanna Kaupþings væru endaleysa og engin ástæða til að fella þær kröfur niður fyrr en dómstólar hafi útkljáð þau mál.

Grein Fréttablaðsins má sjá hér.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×