Viðskipti innlent

Kröfuhafar bankanna tefja samninga til að forðast að bókfæra tap

Erlendir kröfuhafar gömlu bankanna reyna nú að tefja samningaviðræður við íslenska ríkið til að komast hjá því að bókfæra tap vegna bankahrunsins.

Formlega viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna hófust í byrjun síðasta mánaðar. Viðræðum á ljúka í næstu viku þegar ríkið ætlar endurfjármagna nýju bankana.

Ljóst er að kröfuhafarnir þurfa að afskrifa verulega upphæðir vegna bankahrunsins en samningaviðræðurnar ganga meðal annars út á verðmat þeirra eigna sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.

Helga Valfells, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, segir að viðræður við kröfuhafa gangi almennt vel.

„Hins vegar eru sumir kröfuhafar sem vilja tefja samningaviðræðurnar vegna þess að þeir eru ekki tilbúnir að taka á sig tap í sínu bókhaldi vegna þess að þeir eru að taka á sig tap út um allan heim," segir Helga Valfells.

„Þeir eru hugsanlega, ársuppgjör eða milliuppgjör þar sem þeir vilja ekki sýna tapið strax. það er kannski líka það. það eru allir tregir til að taka á sig tap í þessu árferði."

Helga segir að kröfuhafarnir hafi ekki hótað að fara í mál vegna setningu neyðarlaganna hins vegar muni ríkið njóta aðstoðar lögfræðinga náist ekki að klára viðræður fyrir tilsettan tíma.

„Við erum með tvær lögfræðiskrifstofur okkur við hlið, bæði Landslög og Lowels," segir Helga. „Þær eru að teikna upp leiðir og finna leiðir til að friðþægja kröfuhafa ef að samningsviðræðum lýkur ekki á tilskyldum tíma."

Ennfremur kemur fram hjá Helgu að allir séu mjög meðvitaðir um þessa dagsetningu 17. júlí og stjórnvöld muni gera sitt besta til að klára þetta fyrir þann tíma. Ríkið er tilbúið að koma með sitt fjármagn og kröfuhafar vita af því.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×