Viðskipti innlent

Samningur við Cayman-eyjar um upplýsingaskipti undirritaður

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins.
Í gær var samningur Norðurlanda og Cayman-eyja um upplýsingamiðlun undirritaður við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi. Samningurinn veitir norrænum skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um skattskyldar innstæður og tekjur og getur veitt aðgang að fjármagni sem ekki hefur verið gefið upp til skatts í heimalandinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni

„Þetta er mikil framför fyrir norrænt samstarf. Samningurinn er mikilvægur liður í þeirri stefnu að semja við önnur ríki um skattamál," segir Ingemar Hansson ráðuneytisstjóri í sænska fjármálaráðuneytinu.

Samkvæmt Alden McLaughlin ráðherra alþjóðlegrar fjármálaþjónustu á Cayman-eyjum, er samningurinn við Norðurlönd augljós merki um að stjórnvöld á Cayman-eyjum vilji taka upp staðla OECD um gegnsæi og upplýsingamiðlun í skattamálum.

„Ég vona að þessi samningur sé upphafið á áhrifaríku samstarfi milli Norðurlanda og Cayman-eyja," sagði Alden McLaughlin.

Samningurinn er árangur umfangsmikillar vinnu. Áður hafa fjármálaráðherrar Norðurlanda undirritað svipaða samninga við stjórnvöld á Mön, Jersey og Guernsey. Þann 16. apríl verður hliðstæður samningur undirritaður milli Norðurlanda og Bermúda við hátíðlega athöfn í sænska sendiráðinu í Washington. Þá eru samningaviðræður langt komnar við stjórnvöld á Bresku Jómfrúreyjunum, Arúbu og Hollensku Antilleyjunum.

Samkvæmt Torsten Fensby, verkefnisstjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni, hefur vinna við þessa samninga um upplýsingamiðlun nú haft í för með sér að önnur ríki hafa haft samband við Norðurlönd til þess að gera sambærilega samninga.

„Ein af ástæðunum getur verið þær kröfur sem uppi eru í svokölluðum G20-hópi um að það skuli vera forgangsmál að uppræta skattsvik," sagði Torsten Fensby.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×