Viðskipti innlent

Gerir meiri kröfur til þeirra sem eru í forsvari fyrir skilanefndir bankanna

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
„Mér finnst eðlilegt að gera meiri kröfur til þeirra sem eru í forsvari fyrir skilnefndir bankanna," segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í viðskiptanefnd Alþingis, í samtali við fréttastofu.

Eygló segir á heimasíðu sinni að reiðibylgja gangi nú yfir islenskt samfélag eftir að DV flutti frétt þess efnis að enn á ný ætti hugsanlega að afskrifa skuldir fjármálaspekúlanta, án nokkurrar umræðu eða gagnsæis.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, neitaði hins vegar alfarið í samtali við fréttastofu að nokkur lán yrðu afskrifuð án þess að ganga að þeim veðum sem stóðu lánum bankans til grundvallar. Eygló segir hins vegar að það breyti ekki þeirri staðreynd að menn spyrji enn hvað sé að gerast í bankakerfinu.

Hún segir ekki nógu gott regluverk í kringum skilanefndirnar og það þurfi að auka gagnsæi í skilanefndum bankanna.

„Það verður að hafa allt upp á borðum í tengslum við söluferli á öllum eignum þrotabúanna hjá föllnu bönkunum, það gengur ekki að fjölmiðlar séu að fá upplýsingar úr skilanefndum bankanna í gegnum krókaleiðir," segir Eygló í samtali við fréttastofu.

Á heimasíðu sinni segir Eygló að engar skýrar og afmarkaðar reglur virðast vera um verkefni, markmið, ábyrgð og valdsvið skilanefnda né slitastjórna umfram það sem almennt gerist hjá skiptastjórum.

Skilanefndirnar sjálfar segjast fyrst og fremst vera ábyrgar gagnvart kröfuhöfum, en enginn veit hverjir þessir kröfuhafar eru eða hvort þeir koma yfir höfuð að störfum skilanefndanna. Engar reglur virðast vera um hvernig og hve oft skilanefndir eða slitastjórnir gera grein fyrir störfum sínum og eftirlitið með þeim virðist vera mjög lítið að mati Eyglóar.

Hér má lesa pistil Eyglóar í heild sinni.




Tengdar fréttir

Milljarðalán til Magnúsar ekki afskrifuð

„Það er alveg af og frá að lán til Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, hafi verið afskrifuð. Hvorki lán til hans né nokkurra félaga á hans vegum hafa verið afskrifuð. Við munum fyrst ganga að öllum þeim veðum sem liggja láninu til grundvallar," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi Skilanefndar Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×