Viðskipti innlent

Ræða tímabundinn skatt á lífeyrissjóði

MYND/365

Tímabundinn skattur á fjármagnstekjur lífeyrissjóða hefur verið ræddur í efnahags- og skattanefnd Alþingis. Lífeyrissjóðirnir hafa ekki verið skattlagðir með þeim hætti áður.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem sæti á í nefndinni segir hugmyndina góða í því að auðvelt sé að hafa skattinn tímabundinn. „Gallinn er hins vegar sá að einungis hluti kynslóðanna er að borga fyrir þetta," segir hann.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, segir hugmyndina hafa verið rædda í nefndinni nýverið í tvígang. Málið hafi ekki farið lengra en það.

Í nýjasta tölublaði vikuritsins Vísbendingar er bent á að eignir lífeyrissjóðanna nemi nú nálægt 1.700 milljörðum króna, verðbólga sé 10 prósent og að raunávöxtun eigna þeirra hafi verið nokkur flest ár. „Segjum að ávöxtun lífeyrissjóðanna verði 10 prósent eða 170 milljarðar króna. Nú er fjármagnstekjuskattur 15 prósent. Hann gæfi því um 25 milljarða króna á ári. Tímabundinn fjármagnstekjuskattur í þrjú ár yrði veruleg búbót fyrir ríkissjóð," segir í Vísbendingu.

Þá er á það bent að fjármagnstekjuskatti á lífeyrissjóði fylgi ekki þær tæknilegu flækjur sem sumir forsvarsmenn lífeyrissjóða hafi bent á varðandi skattlagningu iðgjalda. Í grein Vísbendingar segir að innheimta skattsins yrði einföld, engin tilfærsla yrði á fjármunum milli kynslóða. Þá næðist líklega betri samstaða um hugmynd af þessu tagi en skattlagningu iðgjalda. „Tekjurnar eru kannski um fimm milljörðum króna minni með þessu móti, en það væri vel til vinnandi að ná sátt um málið," segir þar og áréttað að ekki verði um tvísköttun að ræða því fjármagnstekjur lífeyrissjóða hafi ekki verið skattlagðar.

„Með þessu móti væri búið að minnka þörf á því að skattleggja almenning og kaupmáttur rýrnar því mun minna en ella. Það er mikill ábyrgðarhluti að snúast gegn slíkum hugmyndum í því óyndisástandi sem nú ríkir," segir í Vísbendingu. - óká/ - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×