Skoðun

Við færum þér völdin

Ástþór Magnússon skrifar um lýðræði

Lýðræðishreyfingin www.lydveldi.is vill moka út spillingu sem hefur þróast undir flokksræðinu. Höfnum bakherbergjamakki Alþingis þar sem flokkseigendafélög eða hagsmunaklíkur stýra þingmönnum flokksins eins og peðum á skákborði og maka síðan krókinn á kostnað almennings.

Stjórnmálaflokkarnir hafa þróast í ófreskjur lýðskrumara. Nánast er sama hvort litið er til hægri, vinstri eða miðju, þeir eru upp fyrir haus í fyrirgreiðslupólitík og gegnsýrðir spillingu sem nú afhjúpast í kjölfar bankahrunsins.

Rót vandans liggur í flokkakerfinu sem mótar nýliða í gamla formið. Kosningaloforð verða að engu í hrossakaupum um ráðherrastóla og völd. Einstaklingar kosnir með nokkur hundruðum atkvæðum á flokksþingi geta endað sem forsætisráðherra. Þjóðin kaus ekki þannig, en vegna gallanna í kerfinu hefur flokksvélin tekið af okkur völdin.

Beint og milliliðalaust lýðræði mun uppræta skúmaskot og hrossakaup á Alþingi. Þingmenn sem ekki hlusta á þjóð sína í beinu lýðræði verða valdalausir. Lýðræðishreyfingin er kosningabandalag óháðra frambjóðenda sem vinna sjálfstætt með sín stefnumál án flokkafjötra. Okkar kosningabandalag rúmar fólk úr öllum áttum. Andstæður í umdeildum málum, vinstri menn, hægri menn og allt þar á milli sameinast um beint lýðræði. Við viljum færa þér, einstaklingnum, valdið til að kjósa um einstök mál á Alþingi óskir þú þess.

Allir geti sent Alþingi tillögu að nýju lagafrumvarpi sem skal tekið til umfjöllunar ef stutt undirskriftum 1% kjósenda. Alþingismenn og ráðherrar geti einnig átt frumkvæði að nýjum frumvörpum. Þingmenn fari með umræðu og nefndarstörf vegna frumvarpa á Alþingi og kynni fyrir þjóðinni m.a. á rafrænu þjóðþingi og vefsvæði.

Tilbúin frumvörp verði lögð fyrir þjóðþing Alþingis til atkvæðagreiðslu t.d. 1. maí og 1. des ár hvert. Hraðbankakerfið verði nýtt sem kjörklefar fyrir rafrænt þjóðþing. Ef nauðsyn krefur geti Alþingi samþykkt bráðabirgðalög er gilda fram að næsta þjóðþingi. Þingmenn fara með atkvæði þeirra sem ekki óska að neyta atkvæðisréttar á þjóðþingi Alþingis.

Þingmönnum fækkað í 31 og valdir í persónukosningum. Alþingi velji ráðherraefni á faglegum forsendum. Forseti, sem þjóðkjörinn umboðsmaður lýðsins og eftirlitsaðili með virku lýðræði, skipar ráðherra og veitir þeim lausn eins og nú er. Ráðherrar sitji ekki á Alþingi, ráðning dómara og æðstu embættismanna verði staðfest af þjóðþingi Alþingis.

Höfundur er talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar.






Skoðun

Sjá meira


×