Viðskipti innlent

Krafa um að bankar setji ólífvænleg fyrirtæki í þrot

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir að ekki eigi að halda rekstri ólífvænlegra fyrirtækja gangandi í virkri samkeppni við rekstrarhæf fyrirtæki. Slík fyrirtæki þyrfti að selja hið fyrsta eða þá að bankarnir myndu virða þau lögmál viðskiptalífsins að ólífvænleg fyrirtæki fari í þrot.

Þetta kom fram í máli Þórðar á fundi Viðskiptaráðs í gærmorgun, um áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Fjallað er um ræðuna á vefsíðu Viðsksiptaráð en Þórður var meðal framsögumanna á fundinum. Fjallaði Þórður um samkeppnisaðstæður fyrirtækja í bankakreppu og lagði áherslu á þau áhrif sem yfirtaka banka á fyrirtækjum hefði á samkeppnisaðila þeirra.

Í máli Þórðar kom fram að bankarnir þyrftu að huga meir að samkeppnisáhrifum slíkra aðgerða og þá sérstaklega að halda ekki rekstri ólífvænlegra fyrirtækja gangandi í virkri samkeppni við rekstrarhæf fyrirtæki. Slík fyrirtæki þyrfti að selja hið fyrsta eða þá að bankarnir myndu virða þau lögmál viðskiptalífsins að ólífvænleg fyrirtæki fari í þrot.

Þórður segir ennfremur að með því að tryggja rekstrargrundvöll ólífvænlegra fyrirtækja væru bankarnir að valda verulegum samkeppnisröskunum, enda hefðu flestir markaðir dregist umtalsvert saman frá hruninu og því væri minna pláss en áður fyrir fyrirtæki á þeim mörkuðum. Umframafkastagetu atvinnulífsins þyrfti að laga að þessum samdrætti í eftirspurn.

Ef bankar ætla að halda ólífvænlegum fyrirtækjum gangandi er ljóst að mati Þórðar að þeir vinni gegn umræddri aðlögun á afkastagetu, sem getur á endanum leitt til þess að enn fleiri fyrirtæki lendi í rekstrarerfiðleikum. Þá velti Þórður því jafnframt upp hvort raunhæft væri að bankarnir gætu rekið þessi fyrirtæki betur en fyrri eigendur þeirra, að því er segir á vefsíðunni en þar má nálgast ræðu Þórðar í heild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×