Innlent

Þjónusta dregst saman í sveitunum með fólksfækkun

Fólksfækkun í dreifbýlinu stuðlar að samdrætti í verslun og þjónustu, sem svo aftur gerir þeim sem eftir sitja enn erfiðara að búa áfram. Þetta segja ung hjón sem létu drauminn rætast um að gerast bændur.

Lómagnúpur blasir við, þau gerast vart fegurri bæjarstæðin á Íslandi og ekki að undra að ungu hjónin, sem bæði eru úr sveit, þau Björn Snorrason og Ragnheiður Hlín Símonardóttir, hafi gripið tækifærið fyrir þremur árum þegar foreldrar hans vildu draga sig í hlé frá búskapnum á Kálfafelli í Fljótshverfi í Skaftárhreppi.

Þau eiga fjögur börn, tvo syni undir grunnskólaaldri og tvær dætur, en með dætrunum í skólabílnum á Klaustur er bara eitt annað barn úr þeirra sveit. Sveitin er að eldast, segja þau, og margir i kringum 65 ára aldurinn, sem eru að ljúka sinni starfsævi, og ekki að sjá nein umskipti í sveitunum.

Þau reka kúabú og mjólkurbíllinn er hér að sækja 900 lítra, afrakstur tveggja daga. Þau kvarta ekki undan afkomunni en búrekstur sem þessi er viðkvæmur og kallar á stöðuga yfirlegu og viðhald, en verður erfiðari þegar fólkinu fækkar.

Byggingavöruverslunin lokaði, - er aðeins opin milli klukkan eitt og fjögur á fimmtudögum, einn dag í viku, - þau segjast þurfa að fá aðsent nánast hverja einustu spýtu og hvern einasta nagla. Þau eigi orðið allt sitt undir flutningi, sem verði sífellt dýrari. Þá stefni í að ferðum flutningabíla muni fækka.

Þau vilja umfram allt vera áfram í búskap en segjast vera farin að spyrja sig um framtíðina í sveitinni. Börnum fækki stöðugt í skólanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×