Innlent

Birkir Jón: Óboðleg vinnubrögð

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um umhverfis- og auðlindaskatt var afgreitt sem lög frá Alþingi í dag. Varaformaður Framsóknarflokksins sagði vinnubrögð ríkisstjórnarinnar óboðleg. Aftur á móti sagði formaður efnahags- og skattanefndar að um mikilvægt framfaramál væri að ræða.

Lögin gera meðal annars ráð fyrir því að sérstakt kolefnisgjald verði lagt á bensín og olíu. Einnig að lagður skattur á sölu á rafmagni og heitu vatni. Skatturinn á að skila ríkissjóði um 5 milljörðum á ári. Frumvarpið var samþykkt með 30 atkvæðum gegn 24.

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði lögin vera aðför að ferðaþjónustunni í landinu. Um væri að ræða landsbyggðarskatt. „Það virðist ekki vera neitt vera marka það sem ríkisstjórnin lofaði almenningi fyrir síðustu kosningar. Það er allt svikið." Hann sagði aldrei hafa verið staðið jafn illa að breytingum á skattalögum á Alþingi. Vinnubrögðin væru óboðleg. Vísa ætti málinu aftur til ríkisstjórnarinnar til betri úrvinnslu.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, sagði að um mikilvægt framfaramál væri að ræða. Hann sagði löngu tímabært að bregðast við mengun með sköttum. Eðlilegt væri að almenningur fái með beinum hætti arð að orkuauðlindum sínum.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrti að lögin komi til með að skemma fyrir nýsköpun, hækka vöruverð á landsbyggðinni og skerða samkeppnisstöðu útflutningsgreina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×