Skoðun

Hver er staðan?

Jórunn Frímannsdóttir skrifar um velferðarmál

Hinn 8. október á síðasta ári samþykkti velferðarráð Reykjavíkur sérstaka aðgerðaráætlun vegna bankahrunsins. Þá þegar var okkur, sem starfað höfum að velferðarmálum í borginni, ljóst að fram undan væru miklar áskoranir. Strax var hafist handa við að aðlaga þá þjónustu sem veitt er á þjónustumiðstöðvum borgarinnar að breyttri samfélagsstöðu og búa starfsfólk undir aukið álag. Þremur mánuðum síðar samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur svo fjárhagsáætlun þar sem m.a. er gert ráð fyrir auknu fjármagni vegna fjárhagsaðstoðar.

En hver er staðan nú? Eins og öllum er ljóst hefur atvinnuleysi aukist hraðar en við var búist og fjárhagslega kreppir að hjá mörgum, jafnvel þó að fólk hafi atvinnu. Þegar litið er til síðasta árs kemur í ljós að fjöldi þeirra sem njóta einhvers konar þjónustu hjá Velferðarsviði hefur aukist um 24% á einu ári. Aukning í fjölda heimila sem fá húsaleigubætur hófst í október og hefur verið stigvaxandi. Umtalsvert stökk varð í nóvember hvað varðar fjölda atvinnulausra án bótaréttar sem njóta fjárhagsaðstoðar.

Mælanleg aukning hefur einnig verið í þjónustu við börn á leik- og grunnskólaaldri. Í nokkur ár hefur verið stígandi í fjölda barnaverndartilkynninga í borginni, sem m.a. má rekja til aukinnar vitundar almennings og fagaðila um mikilvægi þess að hafa samband við barnaverndaryfirvöld, ef grunur leikur á að börn þurfi á aðstoð að halda. Sérstaklega er nú fylgst með álagi hjá Barnavernd Reykjavíkur, enda sýnir erlend reynsla nauðsyn þess í efnahagskreppum.

Á sama tíma og við stöndum velferðarvaktina erum við líka að taka jákvæðar ákvarðanir varðandi atvinnusköpun fyrir fólkið og fyrirtækin í borginni.

Ég hvet þá íbúa borgarinnar sem á þurfa að halda að kynna sér þjónustuna sem borgin býður. Hjá Reykjavíkurborg starfar mikill fjöldi reyndra sérfræðinga og fagfólks sem getur stutt við bak fólks og leiðbeint því um rétt sinn og möguleika. Á heimasíðu Velferðarsviðs, www.velferdarsvid.is, er að finna margvíslegar upplýsingar undir hnappnum: Upplýsingagátt vegna efnahagsástandsins og starfsmenn símavers borgarinnar taka vel á móti fyrirspurnum í síma 411 11 11.

Höfundur er formaður velferðarráðs.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×