Innlent

Flugráðsveislan kostaði 207 þúsund krónur

Kristján L. Möller Samgönguráðherra skipaði núverandi sex manna flugráð á árinu 2007.Fréttablaðið/Vilhelm
Kristján L. Möller Samgönguráðherra skipaði núverandi sex manna flugráð á árinu 2007.Fréttablaðið/Vilhelm

Jólakvöldverður flugráðs í Perlunni á fimmtudag í síðustu viku kostaði ríkið 207 þúsund krónur að sögn Gunnlaugs Stefánssonar, formanns ráðsins.

„Hvar sem ég starfa og fæ einhverju ráðið og starfsfólki/nefndarfólki eru þökkuð vel unnin störf með því að gera sér dagamun, þá skuli það gert samkvæmt sæmilegri gestrisni og skikkan meðal annars um rækt við fjölskyldugildi eins og aðstæður leyfa og við á," segir í svari Gunnlaugs við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í flugráði sitja samtals sex manns. Hins vegar voru tuttugu gestir á jólahlaðborðinu. „Sex starfsmenn stjórnsýslunnar undirbúa ásamt formanni fundi ráðsins og taka þátt í störfum þess, en fá ekki greitt sérstaklega fyrir það og er sú vinna oft innt af hendi utan hefðbundins vinnutíma," segir í svari Gunnlaugs. Hann ítrekar það sem hann sagði í Fréttablaðinu í gær að ríkið greiði þremur af sex flugráðsmönnum ekki fyrir setu í ráðinu. Það séu fulltrúar sem tilnefndir séu af atvinnulífinu.

„Samkvæmt tillögu minni fyrir tveimur árum í anda hógværs viðurgjörnings við fundarhöld ráðsins var ákveðið að við gerðum okkur dagamun vegna fundar í desember og neyttum kvöldverðar á kostnað ráðsins ásamt mökum," upplýsir Gunnlaugur.

Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði núverandi flugráð. Þegar óskað var eftir viðbrögðum ráðherrans í gær vegna veisluhalda flugráðs kvaðst hann ekki hafa kynnt sér málið og því ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×