Viðskipti innlent

FME sektar fjögur bæjarfélög fyrir brot á lögum

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sektað fjögur bæjarfélög og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Þetta kemur fram á vefsíðu eftirlitsins.

Bæjarfélögin sem hér um ræðir eru Reykjavíkurborg, Akureyri, Garðabær og Álftanes. Öllum málunum er lokið með sátt. Sektargreiðslurnar nema á bilinu 400.000 til 800.000 kr.

Hvað Akureyri varðar er um ræða að bærinn sem útgefandi skráðra skuldabréfa braut gegn lögum með því að hafa ekki skipað staðgengil regluvarðar fyrr en þann 30. apríl 2009, þrátt fyrir að hafa verið útgefandi skráðra skuldabréfa síðan í maí 2003.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er kveðið á um skyldu stjórnar útgefanda til að ráða regluvörð eða staðfesta formlega ráðningu hans. Með sama hætti skal ráða staðgengil regluvarðar.

Hvað hin bæjarélögin varðar, sem og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum brutu þau gegn lögunum með því að hafa skilað lista yfir fruminnherja fjölda mánaða of seint til Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt að hafa aldrei skilað lista yfir aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum síðan rafrænt skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins var tekið í notkun í desember 2006.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er kveðið á um skyldu útgefenda til að senda Fjármálaeftirlitinu, í því formi sem eftirlitið ákveður, upplýsingar um fruminnherja, tímabundna innherja og aðila fjárhagslega tengda innherjum. Endurskoðaðan lista yfir innherja skal senda Fjármálaeftirlitinu eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×