Viðskipti innlent

Seðlabankinn hefur keypt gjaldeyri fyrir 15 milljarða á árinu

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt tæplega 15 milljarða kr. á gjaldeyrismarkaði, og varið til þess ríflega 80 milljónum evra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að gjaldeyrisforði bankans hækkaði raunar um ríflega 16 milljarða kr. í októbermánuði samkvæmt nýlega birtum tölum á vef bankans. Kom sú aukning til af útborgun AGS á þeim hluta lánafyrirgreiðslu sjóðsins sem háð var fyrstu endurskoðun áætlunar hans og stjórnvalda.

Nemur forðinn nú í heild 451 milljörðum kr. Á móti gjaldeyriseign bankans standa þó ýmsar skammtímaskuldbindingar, til að mynda innstæður á gjaldeyrisreikningum. Nettó gjaldeyrisstaða bankans til skemmri tíma er því tæpir 224 milljarða kr., og gefur hún réttari mynd af slagkrafti bankans í þeirri viðleitni sinni að halda aftur af óhóflegum sveiflum og myndun vítahrings í gengisþróun krónu.

Ef miðað er við nettóstöðuna og umfang inngripa Seðlabankans það sem af er ári má álykta að inngrip bankans hafi ekki höggvið ýkja stór skörð í forða bankans, en þó er ljóst að því eru takmörk sett hversu lengi bankinn getur stundað slík kaup miðað við núverandi aðstæður á markaði.

Greining fjallar um inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaðinn skömmu fyrir lokun hans s.l. föstudag. „Í ljósi inngripa Seðlabankans í síðustu viku eru orð Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra á morgunverðarfundi viðskiptaráðs athyglisverð," segir í Morgunkorninu.

„Már fjallaði þar meðal annars um réttmæti inngripa á gjaldeyrismarkaði og færði fyrir því rök að beiting gjaldeyrisforða gæti skipt sköpum við að varðveita fjármálastöðugleika við erfiðar aðstæður. Vísaði hann m.a. til reynslu ríkja á borð við Brasilíu, Kóreu og Ástralíu í þessu sambandi.

Svo virðist sem koma Más í Seðlabankann hafi markað nokkra stefnubreytingu í þessum málum, því sérfræðingar bankans hafa á liðnum árum gjarnan haldið þeirri skoðun á lofti að inngrip á gjaldeyrismarkað séu gagnslítil."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×