Viðskipti innlent

Slakað á gjaldeyrishömlum

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. Unnið hefur verið að áætlun um afnám gjaldeyrishafta í ráðuneyti hans.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. Unnið hefur verið að áætlun um afnám gjaldeyrishafta í ráðuneyti hans.

Áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna verður kynnt í dag. Unnið hefur verið að áætluninni í viðskiptaráðuneytinu en hún er liður í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Fram til þessa hafa ekki verið taldar forsendur til að slaka á höftunum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn [AGS] staðfesti í gær seinkun á endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Verður hún ekki framkvæmd fyrr en undir lok ágúst eða í byrjun september. Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer í tveggja vikna sumarleyfi á föstudaginn í næstu viku.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu frá í gærkvöldi segir að AGS telji stjórnvöld hafa uppfyllt skilyrði endurskoðunar. Þrátt fyrir það hafi henni verið frestað. Sjóðurinn hafi staðreynt að fjármögnun áætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð. Umsamin norræn lán séu mikilvægur hluti áætlunarinnar og verði aðgengi að þeim að vera að fullu tryggt áður en framkvæmdastjórnin telji sig geta gengið frá endurskoðuninni.

Meðal þess sem kveðið er á um að eigi að vera lokið og stjórnvöld hafa framkvæmt er samþykkt áætlunar um ríkisfjármál til næstu ára, samningar um endurfjármögnun bankakerfisins og við skilanefndir bankanna og undirritun lánssamninga við Norðurlönd og samninga um Icesave.

Norðurlöndin hafa ekki viljað reiða fram umsamin lán. Heimildir herma að ástæða þess sé að Icesave-samkomulagið bíði enn afgreiðslu Alþingis.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun AGS mjög bagalega. Lán frá sjóðnum og Norðurlöndunum verði að berast. Hann segir augljóst að ljúka verði Icesave-málinu sem fyrst; þingmenn verði að meta líkurnar á að betri samningar náist við Breta og Hollendinga en þeir sem liggja fyrir.

„Menn verða að setja sig í spor þeirra [Breta og Hollendinga] og spyrja hvort þeir séu líklegir til að gera annan og betri samning við okkur. Hvaða ástæðu ættu þeir að hafa til þess? Menn þurfa að meta líkurnar á að við getum fengið betri samning og miða þær við það tjón sem hugsanlega hlýst af því að afgreiða ekki málið."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×