Viðskipti innlent

Enn mikil svartsýni meðal neytenda til efnahagsmála

Væntingar hækkuðu aðeins á milli júní og júlí. Mynd/ Völundur.
Væntingar hækkuðu aðeins á milli júní og júlí. Mynd/ Völundur.
Væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins hækkuðu aðeins á milli júní og júlí síðastliðins. Breytingin er óveruleg og svartsýnin enn allsráðandi hjá íslenskum neytendum. Væntingavísitala Capacent Gallup sem birt var í morgun stóð í 24,9 stigum í júlí og hækkaði um 4,0 stig frá fyrri mánuði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að vísitalan hafi verið að meðaltali 27 stig frá því í nóvember í fyrra eða frá hruni bankanna, og er mælingin í júlí því aðeins undir meðaltalinu þennan tíma. Íslenskir neytendur hafa verið afar svartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið allan tíma frá hruni bankanna.

Undanfarna 17 mánuði eða allt frá mars á síðasta ári hefur gildi vístölunnar verið undir 100 stigum sem þýðir að fleiri svarendur eru neikvæðir en jákvæðir. Mesta bjartsýni sem mælst hefur á þennan mælikvarða meðal neytenda hér á landi mældist í maí 2007 þegar vísitalan var 155 stig. Þá fór lítið fyrir svartsýni meðal neytenda. Nú er hinsvegar allt önnur staða uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar, kaupmáttur lækkandi, atvinnuleysi mikið, verðbólgan há, húsnæðisverð lækkandi og skattahækkanir framundan.

Það kemur því varla á óvart að nú skuli 89% aðspurðra hafa sagt núverandi efnahagsástand vera slæmt á meðan aðeins 0,4% aðspurðra sögðu það gott. Þá töldu 58% aðspurðra að efnahagsástandið yrði verra eftir 6 mánuði og einungis 13% að það yrði betra.

Talsverð fylgni er á milli Væntingavísitölunnar og einkaneyslu. Þannig segir vísitalan ágætlega til um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í neysluútgjöldum heimilanna, en einkaneysla er stærsti einstaki liður landsframleiðslunnar. Einkaneyslan hefur dregist hratt saman undanfarið og mældist samdrátturinn á milli fyrsta ársfjórðungs í ár og sama tíma í fyrra 22,1%, og 23,8% ef fjórði fjórðungur í fyrra er skoðaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×