Innlent

Ljósmóðirin sér sjálf um að fjölga börnunum

Þegar engin fæðast börnin í sveitinni, hvað gerir þá ljósmóðirin? Í Skaftárhreppi heldur hún uppi merkinu og er sjálf lögst í barnseignir.

Skammt austan Hverfisfljóts, á bænum Maríubakka, býr ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur hreppsins, Auðbjörg Bjarnadóttir, ásamt manni sínum, Bjarka Guðnasyni, bónda og vélstjóra. Þau eiga tvær dætur, sú yngri er nýjasti íbúi sveitarinnar, fæddist 1. desember.

Hún segist hafa fundið fyrir mikilli gleði í sveitinni vegna barnsfæðingarinnar og sér hafi borist margar kveðjur. Þetta sé það góða við að vera hluti af litlu samfélagið að þetta sé allt eins og ein stór fjölskylda. Nálægðin sé mikil við náungann.

Hún er ættuð úr Bolungarvík, langafabarn Einars Guðfinnssonar, en flutti úr Hafnarfirði fyrir tveimur árum með Bjarka manni sínum til að taka við sauðfjárbúi foreldra hans. Hún kveðst fegin að vera laus úr borgaramstrinu.

Eldri dóttirin er fimm ára og sú eina í sínum árgangi á landssvæðinu milli Mýrdalssands og Skeiðarársands. Ljósmóðirinn vill auðvitað sjá börnunum fjölga en til þess vanti fleira ungt fólk og það sé ekkert eitt einfalt svar við því hvernig eigi að bregðast við fólksfækkun.

Húsnæðisskortur er einn þáttur. Það sé ekkert húsnæði að hafa á Klaustri.

Auðbjörg telur mikilvægt að verja lágmarksþjónustu, sérstaklega heilbrigðis- og skólakerfið. Það sé nauðsynlegt til að það sé fýsilegt að setjast að.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×