Viðskipti innlent

Möguleiki á 50 milljörðum í skatta til viðbótar

Ef allar hugmyndir um skattahækkanir sem taldar eru fram í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009 til 2013 eru lagðar saman jafngildir það um 50 milljarða kr. tekjum í ríkissjóð. Þá er verið að ræða um upphæð sem er umfram þá 28 milljarða kr. sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í áætlun næsta árs.

Þetta kemur fram í úttekt hagfræðideildar Landsbankans á skýrslunni sem birt er í Hagsjá deildarinnar í dag. Þar segir að það ráðist svo af því hvernig til tekst í niðurskurði hversu stór hluti þessara hækkana kemur til framkvæmda.

Fjármálaráðherra hefur þegar hrint í framkvæmd hækkun á sköttum á eldsneyti og áfengi, en fyrir þinginu liggur frumvarp um að hækka launatengd gjöld, virðisauka á algengum neysluvörum sem innihalda sykur, hærri laun og fjármagnstekjuskatt. Næsti áfangi skattahækkana miðar að því að færa skattbyrði af hinum tekjulægri yfir á hina tekjuhærri.

Meðal þess sem rætt er í skýrslunni er að hækka tekjuskatta um 2% af landsframleiðslu sem gæfi um 30 - 35 milljarða kr. auknar tekjur á ári. Fjármálaráðherra bendir á að frá 1993 hafa tekjuskattar sem hlutfall af heildarlaunum hækkað úr 17% í nær 22%. Mestan hluta þeirra hækkunar má rekja til þess að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun og fjármagnstekjuskattar voru teknir upp.

Hækkanirnar hafa bitnað hlutfallslega mest á tekjulægri hópunum. Fjölskyldum undir skattleysismörkum hefur fækkað og skattbyrði tekjulægsta hópsins hækkaði um 10% milli 1993 og 2005.

Þar sem hlutur fjármagnstekna í tekjum einstaklinga hefur aukist og þá einkum meðal þeirra tekjuhæstu, hefur skattbyrði þess tíunda hluta hjóna sem hafa hæstar tekjur hinsvegar hækkaði um innan við 2% og hún lækkaði raunar um 15% hjá þeim hjónum sem hafa hæstu tekjurnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×