Viðskipti innlent

Atvinnulausum erlendum ríkisborgurum fækkar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Erlendum ríkisborgurum sem eru án atvinnu hefur fækkað samfellt þrjá undanfarna mánuði. Greiningadeild Íslandsbanka gerir málið að umfjöllunarefni í Morgunkorni sínu. „Í lok júní voru alls 1.800 erlendir ríkisborgarar án atvinnu samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar og er það töluverð fækkun frá fyrri mánuði þegar 2.000 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildaratvinnuleysi hefur lækkað hratt það sem af er ári," segir í Morgunkorninu.

Þá segir Greiningardeildin að í lok júní hafi erlendir ríkisborgarar verið 11,8% þeirra sem skráðir voru án atvinnu en í byrjun árs hafi erlendir ríkisborgarar verið 16,5% atvinnulausra í landinu. „Miðað við það mat Vinnumálastofnunar að nálægt 9.000 erlendir ríkisborgar séu nú á innlendum vinnumarkaði er atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hér á landi nú um 20% og hefur verið að dragast saman frá því að það náði hámarki í upphafi árs í kringum 23%. Þetta er gríðarlega mikið atvinnuleysi, sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir hrunið, eða í ágúst síðastliðnum, var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara innan við 2%," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×