Innlent

Formaður ASÍ gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ríkisstjórnin hefur efnt afar fátt í stöðugleikasáttmálanum og lítið þokast í samkomulagsátt, sagði Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, á ársþingi sambandsins í dag.

Gylfi sagði að í lok ágúst hefði komið í ljós að enginn vinna hafði farið fram á vegum stjórnvalda til að ýta í gang sérstökum framkvæmdum í samstarfi við lífeyrissjóðina, ekki hafði tekist að ljúka endurfjármögnun bankanna, ekki hafði tekist að ljúka endurskoðun 1. áfanga AGS-áætlunarinnar og því ekki tekist að tryggja Seðlabankanum aukin gjaldeyrisforða til að slaka á gjaldeyrishöftum og lækka vexti. Ekkert hafði sem sagt verið gert, engar ákvarðanir verið teknar og um tíma virtist ríkisstjórnin einfaldlega hafa misst meirihluta sinn á Alþingi.

„Ofan í þetta úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar hafði umhverfisráðherrann lagt sig sérstaklega fram við að finna leiðir til þess að geta tekið úrskurð Skipulagsstjóra um lagningu SV-línu á Suðurnes aftur upp og vísaði málinu aftur til embættisins til endurnýjaðrar efnismeðferðar. Þar með seinkar línulögninni sem aftur setti allar framkvæmdir sem henni tengjast í verulega óvissu, einkum gagnageymsluverið í Keflavík og álverið í Helguvík - sem framkvæmdir eru þegar hafnar við," sagði Gylfi.

Hann benti á að þetta væri í fullkominni andstöðu við skýr ákvæði stöðugleikasáttmálans, sem byggði á því að deilum um þessar ákvarðanir væri lokið og að framkvæmdum ætti aðhraða

Hann gagnrýndi jafnframt þætti í fjárlagafrumvarpinu sem lúta að skattahækkunum bæði á einstaklinga og fyrirtæki sem og útfærslu þeirra. Jafnframt sagði hann að hugmyndir um orku- og umhverfisskatta hafi sett öll áform um fjárfestingar í orkugeiranum í algjört uppnám.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×