Erlent

Íranar brátt taldir geta smíðað sprengju

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríkjamenn vara við því að Íranar séu nú farnir að nálgast það ískyggilega mikið, að geta smíðað kjarnavopn.

Íranar hafa nú auðgað um 1,4 tonn af úrani í neðanjarðarhíbýlum í Natanz, að því er Alþjóðakjarnorkustofnunin IAEA telur. Mat stofnunarinnar er að íranskir vísindamenn séu komnir mjög nálægt því að geta smíðað fullbúna kjarnorkusprengju og þar með komist í hóp kjarnorkuvelda heimsins. Þó er nokkurra mánaða ferli eftir þar til sprengjan yrði tilbúin og segja bandarískir embættismenn ómögulegt að segja til um það með nokkurri vissu hvað Íranar ætla sér í þessum efnum.

Sex stórveldi hafa þegar boðist til að aðstoða Írana við framkvæmd friðsamlegrar kjarnorkustefnu, það er til að nota kjarnorku til orkuframleiðslu frekar en vopna, séu þeir aðeins tilbúnir að ganga að tilskipunum Sameinuðu þjóðanna og hætta auðgun úrans. Ísraelar líta kjarnorkuframleiðslu Írana mjög alvarlegum augum og er töluverð hætta talin á því að þeir leggi til atlögu við Írana fari kjarnorkuframleiðsla þeirra yfir ákveðin mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×