Innlent

Meira þarf frá stórveldunum

forsætisráðherra Jóhanna segir þá staðreynd að um 120 þjóðarleiðtogar hafi sótt ráðstefnuna sýna mikilvægi loftslagsmála.fréttablaðið/kóp
forsætisráðherra Jóhanna segir þá staðreynd að um 120 þjóðarleiðtogar hafi sótt ráðstefnuna sýna mikilvægi loftslagsmála.fréttablaðið/kóp

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ráðstefnuna í Kaupmannahöfn markverða og sýna þann þunga sem nú sé lagður á loftlagsmál. Því til sönnunar sé nóg að nefna þann fjölda þjóðarleiðtoga sem sótti hana heim.

Óvíst var um útkomuna þegar Fréttablaðið hitti hana í Bella Center. Hún segir mikla togstreitu hafa verið á milli iðnríkja og þróunarríkja.

„Þróunarríkin hafa sýnt óbilgirni finnst mér og tengt eigin losunarmörk um of við fjármagn. Þau verða að taka skref til að samkomulag náist. Þá finnst mér Kína og Bandaríkin verða að gefa meira af sér ef árangur á að nást. Evrópa hefur verið mjög metnaðarfull og ég hefði viljað sjá meira frá Bandaríkjunum. En stórveldin sitja enn við samningaborð þegar þetta er talað og ekki er vitað hvernig fer. Það eru þó litlar líkur á lagalega bindandi samningi,“ sagði Jóhanna um kvöldmatarleytið í gær.

Hún segir heiminn ekki hafa efni á að bíða; líf heimsbyggðarinnar sé undir því komið að árangur náist í loftslagsmálum. Náist ekki fullnægjandi niðurstaða í Kaupmannahöfn eigi að stefna að því að ná lagalega bindandi samningi í Mexíkó á næsta ári.

Hún segir Íslendinga geta bærilega við unað hvað sín mál varðar, ekki síst hvað tengingu við markmið Evrópusambandsins áhrærir. Þá sé endurheimt votlendis og áhersla á endurnýjanlega orkugjafa mikilvæg, ekki síður en kynjajafnrétti.

„Við höfum lagt okkar af mörkum og getum verið bærilega sátt við okkar hlut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×